Jonina Ingrid

Listasumar á Akureyri um helgina

Föstudaginn 19. ágúst kl. 19 verður opnuð samsýning fjölþjóðlegu listamannanna Jónínu Mjallar Þormóðsdóttur, Ingrid Elsa Maria Ogenstedt og Arne Rawe í Kaktus, kjallara Listasafnsins á Akureyri og síðar um kvöldið heldur hljómsveitin Á móti sól 20 ára afmælistónleika á Græna hattinum. Á laugardaginn hefst sýning á ljósmyndum Þjóðverjans Anja Teske í Deiglunni og þann sama dag opnar Berþór Morthens sýningu á nýjum verkum sínum í Mjólkurbúðinni. Á laugardagskvöld stíga hinir einu sönnu Hvanndalsbræður á stokk á Græna hattinum og bjóða tónlist, töfrabrögð og gamanmál.

Föstudaginn 19. ágúst kl. 19 opna listamennirnir Jónína Mjöll Þormóðsdóttir, Ingrid Elsa Maria Ogenstedt og Arne Rawe samsýninguna New Nordic Animal Art í Kaktus, kjallara Listasafnsins á Akureyri. Hið dýrslega í norrænni myndlist var áður fyrr bundið í fléttur og form. Á sýningunni New Nordic Animal Art er annað uppi á teningnum; dýrið er óbundið og fer sínar eigin leiðir. Hér er á ferð fjölþjóðlegur hópur listamanna sem sameinast í greiningu sinni á samtímanum. Sýningin stendur til 21. ágúst.

Jónína Mjöll Þormóðsdóttir er íslenskur listamaður, fædd og uppalin á Akureyri. Hún býr og starfar í þýsku borgunum Bremen og Hannover. Hún notar fjölbreyttar vinnuaðferðir í listsköpun sinni; teiknar, málar, prentar, gerir skúlptúra, tekur ljósmyndir, kvikmyndir og gerir gjörninga. Tilraunir með efni eru henni mikilvægar.

Ingrid Elsa Maria Ogenstedt er sænskur listamaður, fædd 1982 í Stokkhólmi. Hún starfar og býr í Berlín í Þýskalandi um þessar mundir. Hennar verk samanstanda að mestu af blýantsteikningum og stórum innsetningum og skúlptúrum. Í list sinni skoðar hún mörkin milli menningar og náttúru; hvernig við upplifum hluti sem manneskjur og hvert samband okkar við náttúruleg efni er.

Arne Rawe er fæddur í Þýskalandi 1972 og er listamaður, húðflúrari og fyrirlesari. Hann býr um þessar mundir á Vestfjörðum og vinnur í Reykjavík, London, Stokkhólmi og Hamborg. Hann skoðar listina í víðu, sögulega og vísindalegu samhengi.

 

Laugardaginn 20. ágúst opnar Anja Teske, ljósmyndari frá Þýskalandi sýninguna „Visual Language“ í Deiglunni laugardaginn 20. ágúst  kl 14:00. Hún er gestalistamaður mánaðarins í vinnustofu Gilfélagsins. Sýningin verður opin laugardag og sunnudag frá 14:00-17:00
Hún segir: „Á Akureyri hef ég unnið með þemað „perspective“, landslag, hið óhlutstæða og einnig umbreytingu mynda. Ég vinn oftast í nokkrum mismunandi langtíma-verkefnum samtímis og leyfi þeim að vaxa. Sýningin samanstendur af ljósmyndum í bland við texta og skissur. Sem ljósmyndari spyr ég sjálfa mig oft: Hver eru áhrif rýmis og sjónarhorns í ljósmyndun og hvernig eru þau sýnileg. Hvernig breytist sjónarhornið í rýminu þegar texti fylgir myndunum? Hvernig er hugtakið „sjónarhorn“ útvíkkað þ.e. huglægt, til að skapa umbreytingu frá raunverulegu rými yfir í vitsmunalegt, heimspekilegt og/eða pólitískt rými? Hver er munurinn á sjónrænu sjónarhorni og huglægu, ímynduðu sjónarhorni?”.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com