Hafid 1

Listasalur Mosfellsbæjar: Sýning um sjómenn – Sýningaropnun 10.janúar

Listasalur Mosfellsbæjar hefur nýtt sýningarár með sýningunni HAFIÐ: Í minningu sjómanna. Þar sýnir Hjördís Henrysdóttir málverk af úfnum sjó og bátum í sjávarháska.

Hjördís Henrysdóttir er ástríðufullur frístundamálari sem fengist hefur við margs konar listsköpun í yfir 50 ár. Hafið, fjaran og brimrót hafa í gegnum árin reglulega ratað á strigann. Ef til vill má rekja það til þess að nóttina sem Hjördís fæddist, 9. febrúar 1946, gekk yfir landið mikið mannskaðaveður. 20 sjómenn fórust þá nótt en margir komust hins vegar í land við illan leik á brotnum bátum. Hjördís á aðra tengingu við sjósókn og sjóslys, því faðir hennar Henry Hálfdánarson var lengi loftskeytamaður á sjó og síðar framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands. Myndirnar á þessari sýningu eiga sér rót í djúpstæðri virðingu og trega vegna þeirra hrafnistumanna sem hafið hefur ekki hleypt í land.

Sýningin verður opnuð föstudaginn 10. janúar kl. 16-18 og síðasti sýningardagur er 7. febrúar.

Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar og opinn á afgreiðslutíma safnsins. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com