Nina Tryggvadottir

Listasafnið á Akureyri leitar að verkum eftir Nínu Tryggvadóttur

Vegna yfirlitssýningar á verkum Nínu Tryggvadóttur, sem verður opnuð í Listasafninu á Akureyri 14. janúar 2017, leitar Listasafnið að verkum eftir Nínu til skráningar og hugsanlega sýningar. Þeir sem eiga verk eftir listakonuna eða vita um verk sem má sýna í Listasafninu eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við Hlyn Hallsson safnstjóra í tölvupósti á netfangið hlynurhallsson@listak.is eða í síma 659 4744.

Nína Tryggvadóttir (1913–1968) var meðal frjóustu og framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar og þátttakandi í formbyltingunni í íslenskri myndlist á 5. og 6. áratugnum. Hún nam myndlist í Kaupmannahöfn og New York og bjó auk þess í París, Lundúnum og Reykjavík. Nína vann aðallega með olíu á striga en hún er einnig þekkt fyrir pappírsverk, verk úr steindu gleri, mósaíkverk og barnabækur. Hún var einn af brautryðjendum ljóðrænnar abstraktlistar.

Sýningin Litir, form og fólk er unnin í samvinnu við Listasafn Íslands, en í safneign þess eru um 80 verk eftir Nínu frá tímabilinu 1938–1967. Hún er að hluta byggð á sýningunni Ljóðvarp sem sett var upp í Listasafni Íslands 2015, en í tengslum við þá sýningu kom út vegleg bók um Nínu. Bókina prýða fjöldi ljósmynda af verkum hennar auk greina og viðtala á íslensku og ensku.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com