Gunnar Kr

Listasafnið á Akureyri: leiðsögn, listamannaspjall og sýningarlok

Fimmtudaginn 20. október kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á síðustu leiðsögnina um sýningu Gunnars Kr., Formsins vegna, í Listasafninu á Akureyri, en henni lýkur næstkomandi sunnudag. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk. Listamannspjall verður laugardaginn 22. október kl. 15 þar sem Joris Rademaker, sýningarstjóri, ræðir við Gunnar Kr.

Aðgangur á báða viðburði er ókeypis.

Myndlist Gunnars Kr. (f. 1956) einkennist af slagkrafti og þunga sem birtist með fjölbreyttum hætti. Hann hefur t.d. teiknað biksvartar blýsólir og logskorið stálblóm. Undanfarin misseri hefur Gunnar notað fislétt og viðkvæmt hráefni til myndgerðar – pappír – sem hann mótar, sker, litar og raðar saman uns tilætluðum áhrifum er náð. Í spennunni milli formrænnar tjáningar listamannsins annars vegar og hráefnisins sem hann notar hins vegar, er feiknarleg orka. Verk Gunnars Kr. líkjast um margt náttúrunni sjálfri; þau eru sterk, form endurtaka sig og fegurðin ríkir – þótt hún sé á stundum ógnvekjandi. Kröftug en þó viðkvæm. Myndlistarferill Gunnars Kr. Jónassonar spannar þriðjung aldar og hefur hann víða komið við. Á fjölmörgum sýningum hefur hann sýnt málverk, skúlptúra, teikningar og vatnslitamyndir. Gunnar býr og starfar að list sinni á Akureyri. Sýningarstjóri: Joris Rademaker.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com