Georg Óskar Vefur

Listasafnið á Akureyri, Ketilhús: Leiðsögn um yfirlitssýningar Nínu Tryggvadóttur og Georgs Óskars

Fimmtudaginn 9. febrúar kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi um yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur, Litir, form og fólk, og sýningu Georgs Óskars Fjögur ár. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, og Georg Óskar taka á móti gestum og fræða þá um sýningarnar og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

Nína Tryggvadóttir (1913-1968) var meðal frjóustu og framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar og þátttakandi í formbyltingunni í íslenskri myndlist á 5. og 6. áratugnum. Hún nam myndlist í Kaupmannahöfn og New York og bjó auk þess í París, Lundúnum og Reykjavík. Nína vann aðallega með olíu á striga en hún er einnig þekkt fyrir pappírsverk, verk úr steindu gleri, mósaíkverk og barnabækur. Hún var einn af brautryðjendum ljóðrænnar abstraktlistar. Sýningin Litir, form og fólk er unnin í samvinnu við Listasafn Íslands, en í safneign þess eru um 80 verk eftir Nínu frá tímabilinu 1938–1967. Hún er að hluta byggð á sýningunni Ljóðvarp sem sett var upp í Listasafni Íslands 2015, en í tengslum við þá sýningu kom út vegleg bók um Nínu. Bókina prýðir fjöldi ljósmynda af verkum hennar auk greina og viðtala á íslensku og ensku.

Á sýningunni Fjögur ár má sjá valin verk úr smiðju Georgs Óskars (f. 1985) frá 2013 til 2016. „Yfirlitssýningar listamanna eru gjarnan stórar í sniðum og innihalda mikið úrval verka sem unnin eru á löngu tímabili. Mér fannst skemmtileg hugmynd að setja núna upp yfirlitssýningu sem spannar aðeins fjögur ár af þeim tólf sem ég hef unnið markvisst að eigin myndlist. Mig langar allavega að sjá eina yfirlitssýningu með verkum mínum, því satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvort ég verði vitni að þeirri næstu.“

Georg Óskar útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2009 og lauk mastersnámi í myndlist við Kunst- og designhøgskolen í Bergen í Noregi 2016. Hann hefur haldið ellefu einkasýningar og tekið þátt í fimm samsýningum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com