Dsc05242

Listasafnið á Akureyri: Dagskrá ársins kynnt og skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning við Ásprent Stíl

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var dagskrá ársins 2017 kynnt og farið í gegnum komandi starfsár. Einnig voru kynntar breytingar sem fyrirhugaðar eru á húsnæði safnsins en framkvæmdir hefjast í febrúar. Í lok fundarins var undirritaður nýr þriggja ára samstarfssamningur Listasafnsins og Ásprents Stíls, sem er einn sex bakhjarla safnsins. Það var G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents Stíls, og Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, sem undirrituðu samninginn. Prentaðri dagskrá ársins var í gær dreift í öll hús á Akureyri.

Fyrsta flokks aðstaða
Áætlað er að framkvæmdum ljúki um mitt ár 2018 og verða þá teknir í notkun bjartir og fallegir sýningarsalir á fjórðu hæð. Nýr og betri inngangur með bættu aðgengi fyrir hreyfihamlaða og barnavagna verður á jarðhæð ásamt safnbúð og notalegu kaffihúsi. Aðstaða fyrir safnkennslu batnar til muna og tækifæri skapast á fastri sýningu með verkum úr safneign auk sögusýningar um fjölbreytt atvinnu- og listalífi í Gilinu í áranna rás. Þessar breytingar færa Listasafninu nýja ásýnd og gott flæði myndast í starfseminni. Með þeim tengist bygging gamla Mjólkursamlagsins Ketilhúsinu og úr verður ein heild.

Arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson hjá Kurt og Pí hafa sérhæft sig í endurgerð verksmiðjuhúsnæðis þar sem virðing er jafnframt borin fyrir sögunni. Þeir hafa teiknað upp breytta nýtingu og nýtt skipulag þessa fyrrum iðnaðarhúsnæðis í Gilinu.

Áfram fjölbreytt starfsemi
Starfsemi í byggingunni verður áfram fjölbreytt: Mjólkurbúðin verður á sínum stað sem og vinnustofur listamanna, listamannarekin sýningarými og gestavinnustofur. Í auknum mæli verður Ketilhúsið notað fyrir viðburði, móttökur, ráðstefnur og veislur. Listasafnið mun þannig laða að sér bæjarbúa og gesti í auknum mæli og af fjölbreyttari tilefni en fram til þessa.

Nína og Freyja opna árið
Sýningarárið 2017 byrjar með tveimur opnunum laugardaginn 14. janúar kl. 15. Á miðhæð Ketilhússins má sjá yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur, Litir, form og fólk, en á svölunum opnar Freyja Reynisdóttir sýninguna Sögur. Síðan rekur hver sýningin aðra með ungum og upprennandi listamönnum, reynsluboltum og frumkvöðlum. Ljósmyndasýningar, stór sumarsýning á verkum norðlenskra listamanna og Gjörningahátíðin A! eru á sínum stað, ásamt einkasýningum vel þekktra listamanna á borð við Rúrí, Sigtrygg Bjarna Baldvinsson, Aðalstein Þórsson, Einar Fal Ingólfsson, Georg Óskar og Friðgeir Helgason. Í boði eru fjölbreyttar sýningar með ólíkum áherslum og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Listasumar mun eftir sem áður blómstra í Listagilinu með vorinu.

Vinir Listasafnsins
Fræðsla, fyrirlestrar, leiðsagnir og safnkennsla eru meðal þess sem Listasafnið hefur lagt aukna áherslu á undanfarin misseri og verður engin breyting þar á. Þriðjudagsfyrirlestrarnir verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins en þeir eru settir upp í samvinnu við Myndlistarfélagið, Menntaskólann á Akureyri, Gilfélagið, Háskólann á Akureyri og Myndlistarskólann á Akureyri. Þeir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann.

Í febrúar verður stofnaður félagskapurinn Vinir Listasafnsins og er öllum áhugasömum boðið að taka þátt í því verkefni.

Á meðfylgjandi myndum eru G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents Stíls, og Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.

Helstu bakhjarlar Listasafnsins á Akureyri eru: Ásprent, Flugfélag Íslands, Geimstofan, Rub23, Norðurorka og Stefna.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com