Hugsteypan Umgerð

Listasafnið á Akureyri, Ketilhús – Leiðsögn um sýningu Hugsteypunnar, Umgerð

Fimmtudaginn 5. nóvember kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi um sýningu Hugsteypunnar, Umgerð, sem var opnuð um síðastliðna helgi. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi Listasafnsins tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna. Aðgangur er ókeypis.

Á sýningunni gefur að líta marglaga innsetningu sem unnin er sérstaklega inn í rými Ketilhússins. Í neðra rýminu blandast margvíslegur efniviður við málaða fleti og ljósmyndir í ýmsum formum sem ásamt lýsingu kalla fram ótal mismunandi sjónarhorn. Efra rýmið býður upp á sjónarhorn þess sem stendur fyrir utan og nýtist sem eins konar áhorfendastúka.

Áhorfendur eru hvattir til að ganga um rýmin og verða virkir þátttakendur í verkinu með því að fanga áhugaverð sjónarhorn á mynd og deila á samfélagsmiðlum. Þegar áhorfendur skrásetja upplifun sína hafa þeir áhrif á framgang og þróun sýningarinnar þar sem myndunum er varpað aftur inn í rýmið jafnóðum. Þannig setja listamennirnir skynjun, hlutverk og stöðu áhorfandans gagnvart listaverkinu í brennidepil.

Hugsteypan er samstarfsverkefni Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur. Þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Hugsteypan hefur verið starfandi frá árinu 2008 en síðan þá hafa Ingunn og Þórdís starfað jöfnum höndum saman undir merkjum Hugsteypunnar og í sitt hvoru lagi við eigin myndlistarverkefni. Verk Hugsteypunnar hafa verið sýnd víða, t.a.m. í Listasafni ASÍ, Kling & Bang gallerí, Hafnarborg og Listasafni Árnesinga auk nokkurra samsýninga erlendis. Hugsteypan hefur m.a. hlotið styrki úr Myndlistarsjóði, Launasjóði íslenskra myndlistarmanna, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Myndstef.

Sýningin stendur til 13. desember og verður opin þriðjudaga – sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýningar Listasafnsins á Akureyri er á hverjum fimmtudegi kl. 12.15-12.45. Aðgangur er ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com