Listasafnreykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur: Sigurður Árni Sigurðsson – ÓraVídd

Sigurður Árni Sigurðsson: ÓraVídd
Yfirlitssýning á Kjarvalsstöðum

Yfirlitssýning á verkum myndlistarmannsins Sigurðar Árna Sigurðssonar, ÓraVídd, verður opin fyrir gesti safnsins í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum frá og með fimmtudeginum 19. nóvember. Vegna heimsfaraldurs COVID-19 verður ekki um formlega sýningaropnun að ræða. 10 gestir geta verið í Listasafninu á hverjum tíma.

Verkin á sýningunni spanna um þrjátíu ára feril Sigurðar Árna en sýningin er hluti af því markmiði Listasafns Reykjavíkur að rannsaka og kynna feril mikilsverðra starfandi listamanna.

Sigurður Árni Sigurðsson hefur alla tíð spunnið stef við málverkið og tekist á við eiginleika þess miðils. Segja má að verk hans fjalli um það hvernig við horfum á heiminn í kringum okkur, þau vekja spurningar um eðli og takmörk sjónsviðsins og hvernig það leggur grunn að heimsmynd okkar. Þar kallast á bæði það sem sést með berum augum og einnig það sem við sjáum ekki. Í verkum listamannsins kemur berlega í ljós að við byggjum skynjun okkar á umhverfinu, ekki síst á því sem við skáldum í eyðurnar. Tilraunir Sigurðar Árna hafa leitt hann á brautir fjarvíddar og rýmis, hvort heldur með nokkurs konar sjónhverfingum á tvívíðum fleti eða með því að skapa þrívíð verk. Þar kemur samspil ljóss og skugga iðulega við sögu og hann er kunnur af verkum sem sýna skuggavarp með ýmsum hætti.

Yfirlitssýning á verkum Sigurðar Árna er sú fjórða í röð Listasafns Reykjavíkur og hluti af þeirri viðleitni safnsins að skrá og greina framvindu myndlistar í gengum veglegar sýningar og útgáfu. Þar eru valdir listamenn sem hafa á heilsteyptum ferli sínum skilað markverðu framlagi til þróunar íslenskrar listasögu. Áður hafa slíkar sýningar verið haldnar á verkum Önnu Líndal, Haraldar Jónssonar og Ólafar Nordal.

Undirbúningur sýningar Sigurðar Árna hefur staðið í rúmt ár og var áætlað að opna hana 17. október áður en safninu var gert að loka vegna samkomubanns. Sýningin hefur því staðið tilbúin í nokkurn tíma án þess að gestir hafi fengið að sjá hana. Nokkur verk eru reyndar fyrir utan Vestursal Kjarvalsstaða, á ganginum þar sem þau eru sýnileg gangandi vegfarendum á Klambratúni auk þess sem eitt verk, Landrek, stendur utandyra í inngarði safnsins.

Í tengslum við sýninguna gefur Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningarskrá með ljósmyndum af sýningunni, myndum af verkum og textum um Sigurð Árna og viðfangsefni hans. Þar skrifar Michel Gauthier, sýningarstjóri við Samtímalistasafn Frakklands í Centre Pompidou í París ítarlega fræðigrein um Sigurð Árna og list hans, Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur ræðir við listamanninn um ferilinn og Markús Þór Andrésson skrifar um þróun ferilsins. Sýningunni verður fylgt eftir með viðamikilli dagskrá.

Sýningarstjóri og ritstjóri sýningarskrár er Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com