Listasafnreykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur: Leiðsögn listamanns – Þorri Hringsson

Sunnudag 20. september kl. 14.00 á Kjarvalsstöðum

Leiðsögn með Þorra Hringssyni um sýninguna Allt sem sýnist – raunveruleiki á striga 1970-2020 á Kjarvalsstöðum. Þorri segir frá verkum sínum og föður síns Hrings Jóhannessonar en báðir eiga þeir verk á sýningunni.

Fjölmargir listmálarar sækjast eftir því að ná fram ímynd raunsæis í verkum sínum. Til að ná árangri tileinka þeir sér handbragð sem krefst bæði þjálfunar og tækni auk þess sem þeir gefa ýmsum smáatriðum gaum. Þegar vel tekst til vekja verk þeirra undrun og ánægju áhorfenda sem trúa vart sínum eigin augum. En er allt sem sýnist í málverkum sem unnin eru í raunsæislegum anda?

Þorri Hringsson, ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir

Þorri Hringsson er fæddur í Reykjavík árið 1966 og býr og starfar í Reykjavík og Aðaldal. Nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur, Myndlista- og Handíðaskóla Íslands og Jan Van Eyck Akademíunni í Maastricht, Hollandi. Hefur tekið þátt í tæplega 70 einka- og samsýningum undanfarin 30 ár, hér heima og erlendis og hefur undanfarna tvo áratugi fengist við að mála síbreytilega náttúru landsins. Hann  hefur kennt myndlist síðan 1993 og þá aðallega módelteikningu og meðferð olíulita. Hann er einnig þekktur fyrir að rita um vín og veitingahús í tímarit og á samfélagsmiðlum.

Hringur Jóhannesson (1932-1996) var upprunninn úr Aðaldal í Suður-Þingeyjasýslu og snéri oft þangað aftur til að mála íslenskt landslag, en það var hans helsta viðfangsefni í gegnum tíðina. Hann útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1952 og hélt sína fyrstu einkasýningu 1962. Alls urðu einkasýningar hans tæplega fjörutíu og samsýningar um sjötíu, bæði hér á landi og erlendis. Hann var kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1959-1962, Myndlistaskólann í Reykjavík frá 1962 og í stjórn skólans frá 1965. Hringur myndskreytti fjöldann allan af blöðum, tímaritum og einnig margar byggingar.

Hringur er einn merkasti raunsæismálari sem fram hefur komið hér á landi. Hann tileinkaði sér snemma myndmál ofurraunsæis og lagði sig fram við að túlka landið og hlutveruleikann á einkar persónulegan hátt. Segja má að Hringur hafi gefið okkur nýja sýn á landið.

Athugið að vegna fjöldatakmarkana er skráning nauðsynleg á heimasíðu eða Facebook síðu safnsins.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com