Listasafnreykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur: Kvöldganga milli upplýstra verka Thorvaldsens

250 ár eru frá fæðingu myndhöggvarans Bertels Thorvaldsen, en hann er talinn hafa fæðst 19. nóvember árið 1770.

Listasafn Íslands og Mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir hátíðardagskrá og málþingi helguðu listamanninum fyrir hádegi en síðdegis býður Listasafn Reykjavíkur í samstarfi við Sendiráð Danmerkur á Íslandi upp á tvær göngur þar sem farið verður á milli listaverka Bertels í miðborginni. Hann var einn helsti listamaður Dana en hann var af íslensku faðerni. Hann bjó lengst af í Róm og var einn fremsti myndhöggvari nýklassíska stílsins. 

Sjálfsmynd Bertels Thorvaldsen með styttuna Von er fyrsta útilistaverkið sem reist var í Reykjavík og var verkið afhjúpað með mikilli viðhöfn á Austurvelli á afmælisdegi listamannsins, 19. nóvember árið 1875. Þessi veglega bronsafsteypa var gjöf borgarstjórnar Kaupmannahafnar til íslensku þjóðarinnar í tilefni þúsund ára byggðar hér á landi árið 1874. Árið 1931 varð sjálfsmynd Bertels að víkja af Austurvelli fyrir styttunni af Jóni Sigurðssyni, eftir Einar Jónson, og var þetta verk þá flutt hingað í Hljómskálagarðinn. Afsteypu af sömu styttu er einnig að finna í Central Park í New York, Thorvaldsensafninu í Kaupmannahöfn og í íbúð myndhöggvarans Einars Jónssonar, sem rúmlega 30 cm háa gifsmynd.

Sigurður Trausti Traustason, safnfræðingur og deildarstjóri safneignar og rannsókna og Aldís Snorradóttir, listfræðingur og verkefnastjóri miðlunar leiða gönguna. Sendiráð Danmerkur á Íslandi lætur lýsa upp verk Bertels í miðborginni í tilefni 250 ára ártíðar listamannsins.

Vegna fjöldatakmarkana verða tvær göngur, kl. 18:00 og 20:00 og er skráning nauðsynleg. Fullt er í gönguna kl. 18:00, örfá pláss eru eftir kl. 20.00.

Skráning HÉR Göngurnar hefjast við styttuna af Adonis í Hallargarðinum, á horni Fríkirkjuvegar og Skothúsvegar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com