ListasafnÍslands

Listasafn Íslands: Sýningaropnun og innsetning á Safnanótt

Sýningaropnun og innsetning úr safneign í Listasafni Íslands á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar kl. 18:00
Katrín Sigurðardóttir High Plane VI og Mats Gustafson Að fanga kjarnann.

MATS GUSTAFSON

AÐ FANGA KJARNANN

7.2.2020 – 3.5.2020

Sænski listamaðurinn Mats Gustafson fangar hverfulleik vatnslitarins af einstakri næmni. Á áttunda áratugnum hóf hann að vinna myndir fyrir tískuheiminn en helgaði sig æ meira eigin listsköpun þegar fram í sótti og hóf að vekja athygli. Í verkum sínum sveiflast listamaðurinn af mikilli leikni milli tískuheimsins, náttúrunnar og könnunar á umhverfinu. Myndefni verka hans virðast fábrotin: barrtré og steinar í náttúrunni, dádýr, andlitsportrett, tískuhönnun og nekt. En allt snýst þetta um að fanga fegurðina í sinni fjölbreyttu mynd. Listsköpun Mats er í senn fáguð og óræð. Pensildrættirnir eru nákvæmir, engin mistök leyfð. Ljósi og skugga er dreift líkt og taktvissum slætti á pappírinn. Litirnir renna saman og magna upp form.

Á sýningunni eru öll þekktustu verk Mats sem hann hefur unnið með tískuhúsum á borð við Christian Dior, Comme des garçons, Yohji Yamamoto, Romeo Gigli og Yves Saint Laurent fyrir tímarit eins og Vogue og Harper‘s Bazaar. Einnig varpar sýningin góðu ljósi á vatnslitaseríur hans af náttúru, nekt og portrettum af samferðarfólki hans.

Mats er fæddur árið 1951 og býr og starfar í New York.

Sýningin er unnin í náinni samvinnu við Norræna vatnslitasafnið í Svíþjóð.

Svört herðaslá (Romeo Gigli), Mats Gustafson, 1990

HIGH PLANE VI

INNSETNING ÚR SAFNEIGN: KATRÍN SIGURÐARDÓTTIR

7.2.2020 – 3.1.2021

Katrín Sigurðardóttir hefur um árabil kannað áhrif skynjunar í margháttuðum innsetningum sínum og verkum. High Plane VI (2001) kallar fram tengsl manna sín á milli og við náttúruna sjálfa. Afstæði stærða og umhverfis er ríkur þáttur í verkum Katrínar og í þessari innsetningu tekst hún á við gamalt og þekkt efni íslenskrar málaralistar, fjöllin og blámann og fjarlægðina – sem og stöðuga nánd listamannsins við íslenska náttúru þó að hann sé jafnvel staddur fjarri föðurlandinu. Verkið vísar einnig til hreinleikans og þess óflekkaða en skírskotar að auki til mismunandi viðmiða og sjónarhorna okkar mannanna eftir því hvert lífsleiðin liggur.

Listasafn Íslands eignaðist High Plane VI árið 2005 og var verkið sérstaklega lagað að sýningarrými í safninu. Gestir þurfa að ganga upp stiga til að skoða verkið og er þessi stóra innsetning síðasta verkið í röð áþekkra verka sem bera sama heiti.

Sýningin er liður í því að kynna viðamikil verk og innsetningar samtímalistamanna úr safneign Listasafns Íslands. Gestir munu fá notið verksins með ólíkum hætti í þeirri breytilegu birtu sem einkennir árstíðir á Íslandi.

Katrín er fædd árið 1967 á Íslandi. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk BFA- gráðu við San Francisco Art Institute og MFA-gráðu frá Mason Gross School of the Arts, Rutgers University. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2013 og hafa verk hennar verið sýnd víða um heim á einka- og samsýningum

High Plane VI, Katrín Sigurðardóttir
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com