Solastalgia

Listasafn Íslands: Solastalgia / Sýningaropnun

5.7.2020 – 10.1.2021

Gagnaukinn veruleiki eftir Antoine Viviani og Pierre-Alain Giraud.

Solastalgia er framlag Listasafns Íslands á Listahátíð í Reykjavík 2020

Miðasala á listasafn.is
Aldurstakmark: 13 ára

Í fyrsta sinn á Íslandi!

Solastalgia er innsetning í gagnauknum veruleika (AR – augmented reality) eftir alþjóðlegt teymi listamanna úr ýmsum greinum þar sem samtímalist og einstakri hljóðhönnun er teflt saman til að skapa einstaka upplifun.

Gestir úr óþekktri framtíð ganga inn í 250 fermetra innsetningu með Hololens 2- höfuðbúnað og kanna jörðina eftir endalok mannkyns, þar sem dularfullt stafrænt ský, sem knúið er áfram af undarlegri vél, er það eina sem eftir stendur. Meðan gestirnir ganga um plánetuna þar sem mosi, brak, rústir og steingervingar hafa numið land birtast vofur mannfólks allt í kring og tjá hin gleðiríku, djúpstæðu og grimmu augnablik tilverunnar um alla eilífð.

Í dag trúum við heitar en nokkru sinni fyrr á framfarir sem verða í krafti tækniþróunar. Við erum tengd við netið hverja stund en okkar björtu, stafrænu framtíð stendur ógn af þeim fordæmalausu hamförum sem vofa yfir mannkyninu. Óeðlilegar sveiflur í loftslagi og hnignun lífvera kalla á hugleiðingu um það hversu viðkvæm siðmenning okkar er í raun og veru. Solastalgia endurspeglar þessa spennu á milli frelsunarmáttar tækninnar og vísindalegra útreikninga um válega framtíð.

Innsetningin varir í rúman hálftíma og geta 10 manns skoðað hana í einu. Aldurstakmark 13 ára

Plánetan

Plánetan sem gestirnir kanna er eyðimörk sem þeim býðst að ganga um að vild. Snerta má allt án þess að gestum stafi nokkur hætta af. 250 fermetra rými hefur verið breytt í eyðiland þar sem undarleg, óþekkjanleg fyrirbæri af óljósum uppruna ráða ríkjum.
Gestir sjá raunveruleikann í kringum sig en heilmyndir birtast þeim í gegnum Hololens 2-höfuðbúnaðinn.

Leikarar

Vofurnar eru túlkaðar af leikurum sem teknir eru upp með rauðri rúmmálsmyndavél, hinni nýju Microsoft Kinect Azure. Þessi myndavél máir út mörkin á milli kvikmynda og stafrænnar þrívíddarveraldar.

Myndþýðing yfir í þrívídd gerir gestunum kleift að ganga á milli þrívíddarpersóna.

Tungumál

Hægt er að velja um þrjú mismunandi tungumál, íslensku, ensku og frönsku

Aðstaða

Hjólastólaaðgengi er takmarkað og viðbúið að ekki sé hægt að komast á hjólastól um alla sýninguna vegna jarðvegs.
Starfsfólk Listasafns Íslands býður fram aðstoð sína eftir fremstu getu.

Hvernig gengur sýningin fyrir sig?

Gestir ganga inn í salinn sem er stúkaður af og setja á sig Hololens 2-höfuðbúnaðinn ásamt heyrnatólum og litlum bakpoka.

Því næst er gengið inn í uppljómað rými en gestir á þessum óþekkta stað hefja könnunarleiðangur sinn þaðan.

Eftir skamma stund opnast dyr þar sem sögur vakna til lífs. Fyrir augum þeirra sem bera Hololens 2- höfuðbúnaðinn birtast heilmyndir af fólki sem rifjar upp minningar úr lífi sem er löngu horfið.

Fyrir miðjum sal stendur ljóssúla. Þegar ljós súlunnar breytist (slokknar) er könnunarleiðangrinum lokið og gestir fara út sömu leið og þeir komu inn.

HOLOLENS 2 – Háþróuð tækni

Microsoft kynnti komu Hololens 2 í febrúar 2019 og hefur búnaðurinn verið fáanlegur á almennum markaði síðan í nóvember. Hololens 2 byggir á gagnauknum veruleika þar sem notandinn gerir sér grein fyrir umhverfi sínu ólíkt því sem raunin er í sýndarveruleika.

Gleraugun kalla fram efni í þrívíðu formi í umhverfi notandans. Með háþróaðri tækni birtast máttugar heilmyndir sem nýtast í ýmsum tilgangi, svo sem í fræðslu, iðnaði og listum.

Höfuðbúnaðurinn er sótthreinsaður eftir hverja heimsókn. Listasafn Íslands fylgir stöðlum Microsoft um hreinsun búnaðarins og tilmælum sóttvarnalæknis á Íslandi varðandi forvarnir gegn Covid-19.

Þrívídd

Fyrir tilstilli hljóðtækninnar munu heyrnartól gesta leika hljóðin líkt og þau berist frá stöðum innan rýmisins. Hljóðheimur Solastalgiu , sem skapaður er af hljóðhönnuði kvikmyndarinnar Gravity (2013), opnar nýjar víddir.

Hver heimsókn í innsetninguna er einstök. Það efni sem hver gestur upplifir, ræðst af ferðalagi hans um rýmið.

Höfundar

Antoine Viviani & Pierre-Alain Giraud

Leikstjórarnir og framleiðendurnir Antoine Viviani og Pierre-Alain Giraud unnu saman að myndinni DANS LES LIMBES (IN LIMBO) árið 2015. Antoine Viviani framleiddi myndina og leikstýrði henni, en Pierre-Alain Giraud sá um klippingu. Þessi heimildamynd í fullri lengd, fyrir kvikmyndahús auk gagnvirkrar netupplifunar, var meðframleidd af Arte France og National Film Board of Canada og hefur verið sýnd á rúmlega 50 alþjóðlegum hátíðum (Open City London Docs Festival, Traces of Life Festival—Clermont-Ferrand, CPH: DOX, IDFA, Harvard Film Festival,
Moscow International Film Festival, Kassel Dokfest, RIFF o.s.frv.).

Árið 2019 hófu þeir samstarf undir formerkjum framleiðslufyrirtækisins Providences og hönnuðu saman innsetninguna SOLASTALGIA . Í Solastalgiu vinna þeir áfram með hugleiðingu sem kviknaði út frá myndinni DANS LES LIMBES , um tilvistarlegt samband okkar við netið og þörfina fyrir að skapa sameiginlegt minni sem mun lifa okkur. Í innsetningunni er brugðið upp nýju, alltumlykjandi formi og spurningarmerki eru sett við þær vonir sem tæknibyltingin hefur vakið sem og löngun mannskepnunnar til að ná alvaldi yfir náttúrunni. Þeir magna upp verk sem dansar á milli listforma. Þeir vinna í þetta sinn sem stjórnendur fremur en listamenn og bjóða
listafólki að taka þátt í sköpun verkefnisins.

Teymið

Handrit og framleiðsla
Antoine Viviani
Pierre-Alain Giraud
AR forritun og myndsköpun
Mathieu Denuit
Leikmyndahönnun
Gabríela Friðriksdóttir
Aðstoðar sviðsmyndahönnuður
Laurence Fontaine
Hljóðhönnun og tónlist
Nicolas Becker
Valgeir Sigurðsson
Danshöfundur
Erna Ómarsdóttir

Leikarar
Sólveig Guðmundsdóttir
Sveinn Ólafur Gunnarsson
Árni Pétur Guðjónsson
Ragnheiður Steindórs
Sara Marti Guðmundsdóttir
Nikulás Barkason

Dansarar
Erna Ómarsdóttir
Elín Signý Ragnarsdóttir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com