Listsafn ASÍ

Listasafn ASÍ velur Hildigunni Birgisdóttur myndlistarmann til samstarfs

Listasafnið kallaði nýverið eftir tillögum frá myndlistarmönnum vegna innkaupa og til samstarfs um sýningahald á næstu mánuðum. Fimmtíu og þrjár tillögur bárust að þessu sinni.

Listráð Listasafns ASÍ 2017-18, sem í eiga sæti sýningarstjórarnir Dorothée Kirch, Heiðar Kári Rannversson og safnstjórinn Elísabet Gunnarsdóttir, kom saman 5. mars s.l. og fór yfir tillögurnar. Ákveðið var að kaupa verk af Hildigunni Birgisdóttur og bjóða henni jafnframt til samstarfs um sýningahald á tveimur stöðum á landinu.

Hildigunnur er fædd 1980 og lærði í Reykjavík og Helsinki. Hún vinnur jöfnum höndum með skúlptúr og innsetningar. Í verkum sínum er Hildigunnur upptekin af smæð og látleysi hversdagslegra hluta, hún notast m.a. við fundið efni og setur þessa tilbúnu hluti í samhengi við tímaskynjun mannsins. Við valið hafði listráðið nýja innkaupastefnu safnsins að leiðarljósi, en hún tekur mið af því menntunar- og miðlunarátaki sem safnið vinnur nú að með sýningarhaldi víða um land og kaupum á nýjum verkum til safnsins þar sem viðfangsefni og/eða miðill endurspeglar tíðarandann með afgerandi hætti. Verk Hildigunnar tala til samtímans, þau eru rannsakandi og leika með viðfangsefnið; og kveikja jafnframt hugmyndir um hið háleita í því látlausa, smáa og venjulega.

Hildigunnur Birgisdóttir er annar listamaðurinn sem Listasafn Alþýðu velur til þáttöku í nýrri sýningarröð sem hleypt var af stokkunum á síðasta ári. Árið 2017 varð Sigurður Guðjónsson fyrir valinu og var sýning hans í Hafnarfirði sú fyrsta í röðinni. Sigurður vann nýverið Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir sýninguna INNLJÓS í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Listasafnið eignaðist öll verkin á sýningunni og verða þau næst sýnd á Blönduósi í júlí á þessu ári.

Á meðan safnið vinnur að því að koma upp nýjum sýningarsal verða sýningar safnsins haldnar í samstarfi við stofnanir og samtök víðsvegar um landið. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem hlut eiga að máli hverju sinni og verða til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Samhliða sýningum á nýjustu verkunum í eigu safnsins verða haldin námskeið í hreyfimyndagerð fyrir grunnskólabörn þar sem unnið er með elstu verkin í safneigninni.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com