Image 1

Listasafn ASÍ velur Bjarka Bragason myndlistarmann til samstarfs

Listasafnið kallaði nýverið eftir tillögum frá myndlistarmönnum vegna innkaupa og til samstarfs um sýningahald á næsta ári. Þetta er þriðja árið í röð sem safnið auglýsir eftir tillögum frá listafólki og að þessu sinni bárumst 55 tillögur frá 62 listamönnum.

Listráð Listasafns ASÍ 2017-20, sem í eiga sæti sýningarstjórarnir Dorothée Kirch, Heiðar Kári Rannversson og safnstjórinn Elísabet Gunnarsdóttir, kom saman 19. ágúst s.l. og fór yfir tillögurnar. Ákveðið var að kaupa verk af Bjarka Bragasyni og bjóða honum jafnframt til samstarfs um sýningahald á tveimur stöðum á landinu árið 2020.

Bjarki Bragason með Dorothée Kirch og Elísabetu Gunnarsdóttur safnstjóra sem skipa listráð Listasafns ASÍ 2017-2020 ásamt Heiðari Kára Rannverssyni

Bjarki Bragason er fæddur 1983 og lærði myndlist í Berlín og Listaháskóla Íslands þaðan sem hann lauk BA-gráðu í myndlist árið 2006 og síðan MFA frá CalArts í Los Angeles 2010. Hann hefur verið lektor og fagstjóri BA náms í myndlist við Listaháskóla Íslands síðan 2016.

Bjarki hefur unnið um nokkurt skeið að verkefninu ÞRJÚÞÚSUND OG NÍU ÁR sem tengist garði ömmu hans og afa og 3000 ára birkitré sem kom undan Breiðamerkurjökli vegna bráðnunar af völdum loftslagsbreytinga. Hann kannar hvernig kortlagning breytinga fer fram og safnar hlutum þar sem ferlið er honum jafn mikilvægt og hlutirnir sjálfir.

Viðfangsefni Bjarka snúast um manneskjuna og náttúruna á tímum vitundarvakningar um hamfarahlýnun og hraðar breytingar í loftslagmálum; og spegla árekstra mennska og jarðfræðilega tímaskalans. Hann vinnur á mismunandi hátt með ólíka þætti verkefnisins og setur þá fram sem tákn breytinga í náttúru, samfélagi, stéttarsögu og jarðsögu.

Bjarki Bragason er þriðji listamaðurinn sem Listasafn ASÍ velur til þáttöku í nýrri sýningarröð sem hleypt var af stokkunum í byrjun árs 2017. Árið 2017 var Sigurður Guðjónsson valinn og haldnar voru sýningar í Hafnarfirði og á Blönduósi með verkum hans. Fyrir sýninguna INNLJÓS í Hafnarfirði hlaut Sigurður íslensku myndlistarverðlaunin 2018. Hildigunnur Birgisdóttir varð fyrir valinu árið 2018 og fyrr á þessu ári voru haldnar tvær samhliða sýningar – UNIVERSAL SUGAR – með verkum hennar í Garðabæ og í Vestmannaeyjum.

Á meðan safnið vinnur að því að koma upp nýjum sýningarsal eru sýningar safnsins haldnar í samstarfi við stofnanir og samtök víðsvegar um landið. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem hlut eiga að máli hverju sinni og eru haldnar til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Samhliða sýningum á nýjustu verkunum í eigu safnsins eru haldin námskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er með elstu verkin í safneigninni.

1.júní s.l. opnaði sýning í Listasafni Árnesinga, GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU – valin verk úr stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ og sama dag kom út vegleg bók með sama nafni sem fjallar um öll verkin í stofngjöfinni. Sýningunni í Hveragrði lýkur 15. September.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com