Listasafn ASÍ kynnir nýtt listráð og kallar eftir tillögum frá myndlistarfólki

Listasafn ASÍ auglýsir eftir tillögum frá listafólki sem vill koma til greina við val á verkum til innkaupa fyrir safnið og til sýningarhalds á tveimur stöðum á landinu n.k. haust.

Listráð safnsins fer yfir allar tillögur og velur listamann/listhóp til að kaupa af þeim verk fyrir um 2 milljónir króna. Í ár verður einn listamaður/listhópur fyrir valinu og næstu ár er ætlunin að kalla eftir tillögum að nýju og velja tvo eða fleiri ár hvert. Auk innkaupa verður viðkomandi listamönnum boðið að halda sýningu á tveimur stöðum haustið 2017. Skilafrestur tillagna er til 10. maí 2017 og niðurstöður verða kynntar um mánaðamót maí-júní.

Nýtt listráð Listasafns ASÍ 2017-18 skipa listfræðingarnir og sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson auk forstöðumanns safnsins Elísabetar Gunnarsdóttur sem jafnframt er formaður. Listráðið er skipað til tveggja ára í senn og er rekstrarstjórn til ráðuneytis um innkaupastefnu og val á listafólki. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu listasafnsins – www.listasafnasi.is

Upplýsingar um nýja innkaupastefnu og val á listamönnum veitir listráð Listasafns ASÍ:

  • Elísabet Gunnarsdóttir forstöðumaður Listasafns ASÍ – 868 1845
  • Dorothée Kirch sýningarstjóri – 690 4960
  • Heiðar Kári Rannversson sýningarstjóri – 693 0486

Nýjar áherslur hjá Listasafni ASÍ

Rekstrarstjórn safnsins hefur samþykkt áætlun til 5 ára þar sem lögð verður áhersla á að kaupa ný verk markvisst inn í safneignina og efla sýningarhald í samstarfi við aðrar stofnanir og samtök víða um land. Eins og kunnugt er hefur safnið ekki yfir eigin sýningsal að ráða þessi misserin og leitar því samstarfs við aðra á meðan fundin er lausn húsnæðismálum safnsins. Skipulögð verður tvíhliða sýningardagskrá, annars vegar sýning á nýjum verkum sem valin hafa verið til kaups og hins vegar kynning á eldri verkum í safneigninni, en þar verður notast við krafta listafólks á ýmsum sviðum. Lögð verður sérstök áhersla á samvinnu við skóla á viðkomandi svæði.

Ný innkaupastefna

Ný innkaupastefna safnsins hefur verið mótuð og tekur hún mið af því menntunar- og miðlunarátaki sem safnið mun ráðast í með sýningarhaldi víða um land á næstunni. Valin verða og keypt inn ný verk þar sem viðfangsefni og/eða miðill endurspeglar tíðarandann með afgerandi hætti. Ekki verður notast við afmarkað þema fyrsta árið (2017) en næsta ár og árin þar á eftir verður unnið með þemu, eitt fyrir hvert ár.

Nýjar og breyttar geymslur safnsins

Auk sýningarhalds og kaupa á nýjum verkum er unnið að því að finna varanlega lausn á geymslumálum safnsins. Til greina kemur að byggja geymslurnar þannig upp að öll verkin verði aðgengileg fagfólki, skólahópum og almenningi með reglulegum opnunartíma, leiðsögn og skipulagðri dagskrá.

Frekari upplýsingar veitir:

Elísabet Gunnarsdóttir
forstöðumaður Listasafns ASÍ
Guðrúnartúni 1 – 105 Reykjavík
+354 868 1845
listasi@centrum.is
www.listasafnasi.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com