Logo – Maxresdefault

Listasafn ASÍ kallar eftir tillögum frá myndlistarfólki

Listasafn ASÍ auglýsir eftir tillögum frá listafólki sem vill koma til greina við val á verkum til innkaupa fyrir safnið og til sýningarhalds á tveimur stöðum á landinu n.k. haust.

Listráð safnsins fer yfir allar tillögur og velur listamann/listhóp til að kaupa af verk fyrir um 2 milljónir króna. Listráðið er skipað þeim Dorothée Kirch, Heiðari Kára Rannverssyni og Elísabetu Gunnarsdóttur forstöðumanni safnsins. Í ár verður einn listamaður/listhópur fyrir valinu og næstu ár er ætlunin að kalla eftir tillögum að nýju og velja tvo eða fleiri ár hvert.

Auk innkaupa verður viðkomandi boðið að halda sýningu á tveimur stöðum haustið 2017. Safnið stendur straum af öllu sem viðkemur sýningarstaðnum, flutningaskostnaði, tryggingum, vinnu listamannsins, ferðum og uppihaldi. Vinna listamannsins felst m.a. í uppsetningu sýninganna, listamannaspjalli og móttöku skólahópa. Greiðslur verða byggðar á Framlagssamningi SÍM frá 2015.
Ekki verður um að ræða greiðslu fyrir framleiðslukostnað listaverka fyrir sýningarnar (að undanskildum efnisstyrk þar sem það á við) og verkin verða áfram í eigu viðkomandi að undanskildum þeim verkum sem safnið kaupir.

Áhugasamir er beðnir um að fylla út eyðublað sem finna má á heimasíðu safnsins – www.listasafnasi.is – þar sem beðið er um grunnupplýsingar. Auk þess er beðið um að eftirtalin fylgigögn verði send með tölvupósti:

1 – Ferilskrá.
2 – Hugleiðing/þankar (max 500 orð).
3 – Sýnishorn af allt að 5 verkum sem koma til greina með stuttum skýringartexta fyrir hvert verk (max 200 orð hver).

Skilafrestur tillagna: 10. maí 2017
Niðurstöður kynntar: Fyrir lok maí 2017

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com