Gunnþórunn

Listasafn ASÍ: Gáttir – Gleym mér ey

Laugardaginn 28. nóvember kl. 15:00 verður opnuð í Listasafni ASÍ sýning á verkum Bryndísar Hrannar Ragnarsdóttur, Gunnþórunnar Sveinsdóttur og Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur en sýningin nefnist Gáttir – Gleym mér ey.

Í texta um sýninguna segir m.a.:

Við tökum á móti sendingu frá Gunnþórunni Sveinsdóttur.

Sýningin mótast í innblæstri og samræðu þriggja listamanna. Aðskildar í tíma og rúmi mætast þær í formi og viðfangi. Með sendingum á borð við hreyfingar, takt, liti og form.

Gáttin er opin, andleg og vísindaleg nálgun eru lagðar að jöfnu.

Samræðan er meðvituð um skynjun okkar á afstæði tíma og fjarlægða.

Abstrakt expressjónísk tengsl við ytri og innri heima eru dregin upp og jafnframt því tengsl við annan og annarskonar tíma.

Skeyti sem skapað er og búið um af alúð,

sett út á óráðið haf með góðum óskum og von um lendingu

sjósett í tíma viðtakandans

verðum sendingin og sendingin finnur sér farveg

Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir ( 1974) nam myndlist við fjöltæknideild Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2002. Hún lauk meistaranámi frá Akademie der Bildenden Kunste í Vínarborg árið 2006.

Bryndís hefur tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis, einkasýning hennar Holning var hluti af  Listahátíð í Reykjavík 2015. Bryndís hefur einnig fengist við sýningarstjórn og útgáfu myndlistartengds efnis.

Gunnþórunn Sveinsdóttir (1885-1970) fæddist í Borgarey í Seyluhreppi, Skagafirði. Fjölskyldan fluttist að Mælifellsá í Lýtingsstaðahreppi er Gunnþórunn var níu ára og þar ólst hún upp. Ung að árum flutti Gunnþórunn til Sauðárkróks. Þar keypti hún lítið hús og stofnaði gistiheimili og sneri sér síðar að verslunarrekstri. Hún skreytti hús sitt sjálf, málaði kúnstverk á veggi og hurðir. Einnig málaði hún mikið af myndum með þekjulitum á smjörpappír og annan pappír sem til var í verslun hennar. Myndirnar eru flestar málaðar í hreinum, skærum litum, kraftmiklar og innilegar.

“Verk Gunnþórunnar búa yfir þeim ferskleika og þeirri dirfsku í litum og lögun, sem einkenna verk barna og svokallaðs frumstæðs fólks, en skera sig þó úr að því leyti, að þau eru óhlutstæð; hugarsmíð. Eftirtektarvert er, að aflvaki verka hennar er sá sami og hjá nútíðarmálurunum: hún eins og þeir hefur víkkað skynsvið mannsins, stækkað sjónvídd hans, tekið eftir hinu stóra í því smáa, margslungið myndform frostrósar verður henni innblástursefni fremur en fjöllin, hið viðtekna landslag, og sjálft hugarflugið fær meira svigrúm en fyrr.” Hörður Ágústsson í Birtingi árið 1963 bls 13.

„… ég varð oft hrifin af ýmsum smámunum, sem komu fyrir augu mín, stundum svo hrifin, að ég stóð og horfði hugfangin á sumt, sem var talið furðulegt, að gæti vakið hrifningu manna. Þá var ég eins og í öðrum heimi, já svo indælum heimi, að ég tók nærri mér að yfirgefa hann “ Gleym-mér-ey 1957, bls.10.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977) lauk námi frá Listaháskóla Íslands 2001, nam listfræði við Háskóla Íslands og lauk meistaranámi frá School of Visual Arts í New York 2013. Hún er í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi og hefur tekið þátt í fjölda sýninga, bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík þar sem hún hefur skipulagt fjölda sýninga og listviðburða með þátttöku innlendra og erlendra listamanna. Í desember 2012 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega sem listamenn sem vert er að fylgjast með á komandi árum.

Sýningin stendur til 20. desember og safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17.

Enginn aðgangseyrir.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com