Locustella Lanceolata, Viirusirkkalintu, Lanceolated Warbler

Listamannsspjall & Hádegistónleikar

Listamannsspjall – Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
Sunnudag 3. September kl. 14

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir verður með listamannsspjall sunnudaginn 3. september kl. 14. Spjallið er í tengslum við nýopnaða sýningu hennar, Erindi, en þar skoðar listamaðurinn breytingar í vistkerfinu sem myndgerast í smáfuglum sem reglulega finnast á Íslandi. Verkin bregða upp ólíkum kerfum sem tengjast skrásetningu tegunda og siglingarfræði en þau eru innblásin af evrópskum sönglögum 19. aldar og samfélagsmálefnum nútímans.

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir nam myndlist við Manchester Metropolitan University, Guildhall University í London og Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim og þess utan stofnað og ritstýrt myndlistartímaritinu Sjónauka.

Nánari upplýsingar veitir:
Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar. s. 585 5790

Hádegistónleikar í Hafnarborg hefjast á nýjan leik
þriðjudaginn 5. september kl. 12

Þriðjudaginn 5. september kl. 12 verða fyrstu hádegistónleikar vetrarins haldnir í Hafnarborg. Að þessu sinni er það ungur baritonsöngvari, Guðmundur Karl Eiríksson sem stígur á stokk ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara. Yfirskrift tónleikanna er Ostar og jarðaber, en Guðmundur sem er ostagerðamaður að mennt og alin upp við jarðaberjarækt á Flúðum ætlar að bjóða tónleikannagestum að gæða sér á dísætum íslenskum jarðaberjum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Guðmundur Karl á stuttum tíma skapað sér nafn í óperuheiminum sem ungur og efnilegur baritonsöngvari og er efnisskrá tónleikanna sérsniðin fyrir rödd á hans kaliberi en það eru aríur úr óperum eftir Gounot, Leoncavallo og Donizetti.

Guðmundur Karl Eiríksson hóf söngnám í Söngskólanum í Reykjavik árið 2011 hjá Garðari Thor Cortes. Árið 2015 færði hann sig svo yfir í Söngskóla Sigurðar Demetz og hefur verið verið nemandi Kristjáns Jóhannssonar síðan. Guðmundur hefur tekið þátt í nemendaóperum hjá báðum skólum og má þar nefna titilhlutverk í Gianni Schicci, Leporello í Don Giovanni og Figaro í Rakaranum frá Sevilla, einnig söng hann hlutverk Barone í La Traviata með óperukórnum.
Síðastliðið sumar var honum boðið að syngja hlutverk Schaunard í La Boheme á Ítalíu undir stjórn Joseph Rescigno. Í september mun Guðmundur svo halda til Verona á Ítalíu að læra þar hið stóra hlutverk Enrico úr Luchia di Lammermoor fyrir uppfærslu sem hann tekur þátt í næsta sumar í San Marino.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.

Nánari upplýsingar veita:
Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar. s. 585 5790 og Antonia Hevesi. s. 864 2151

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com