Listamannsspjall – Curver Thoroddsen

curver2   CurverThoroddsen4

 

Fimmtudaginn 7. maí kl. 20 ræðir Curver Thoroddsen við gesti Hafnarborgar um verk sín á sýningunni MENN sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Curver er þekktastur fyrir gjörninga sína og videoverk þar sem listin og hversdagslegar athafnir renna saman. Curver Thoroddsen er fæddur í Reykjavík árið 1976, hann lagði stund á nám í myndlist við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2000. Hann útskrifaðist með MFA gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2009. Auk þess að starfa sem myndlistarmaður hefur Curver starfað sem tónlistarmaður um árabil. Síðustu ár hefur hann ásamt Einari Erni Benediktssyni skipað dúettinn Ghostdigital sem hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim. Curver hefur einnig starfað með tónlistarkonunni Björk Guðmundsdóttur að verkefninu Biophilia.

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna. Verkin á sýningunni vekja upp áleitnar spurningar um karlmennsku og þau skilaboð sem karlar fá frá samfélaginu. Meginviðfangsefni sýningarinnar er þó sú nánd sem lesa má úr afstöðu listamannanna til fjölskyldu og barna. Þeir taka sér stöðu innan fjölskyldunnar, gera hana að viðfangsefni og búa hversdagslegu lífi listrænan búning. Viðfangsefið hefur lengi verið listamönnunum hugleikið, og þótt verkin hafi mörg skírskotun til annarra fagurfræðilegra eða listrænna viðfangsefna eru þau einkar áhugaverð í þessu samhengi nú árið 2015 þegar þess er minnst að öld er liðin frá því konur hlutu kosningarétt og mikil áhersla er á að skoða reynsluheim kvenna.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com