D5e58337 Bd72 4948 8d88 Fce0d4e58cb9

Listamannaspjall um sýninguna SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR

 

Næstkomandi sunnudag 16. október kl. 15 munu listamennirnir Eva Ísleifsdóttir og Sindri Leifsson ræða við gesti um sýningar sínar í sýningarröðinni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR en það er jafnframt síðasti sýningardagur.SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er sýningaröð sem veitir innsýn í stöðu skúlptúrsins sem miðils í samtímanum. Hér er lögð áhersla á að kynna hugðarefni listamanna þar sem hver og einn gengur að samtali miðilsins og sögunnar á eigin forsendum. Eva Ísleifsdóttir og Sindri Leifsson leggja fram hugleiðingar um skúlptúrinn á samhliða einkasýningum. Verk og vinnubrögð kunna að vera ólík en hugsunin að baki þeim á margt sammerkt þar sem vangaveltum um mannlega hegðun, umhverfi og mótun samfélagslegs skipulags er velt upp á yfirborðið.
Eva Ísleifsdóttir vinnur með ímynd listamannsins og listaverksins. Handverkið er til staðar en gjarnan eru það ásýnd eftirmyndarinnar eða fúsksins sem haldið er á lofti og líkist fremur leikhúsmunum en upphöfðum höggmyndum. Hversdagurinn og samfélagsrýni eru henni hugleikin en dvöl hennar í Aþenu í Grikklandi hefur haft áhrif á verkin. Ekki einungis vegna tenginga við menningar- og listasöguna heldur einnig með vísun í samfélagslega stöðu okkar tíma.

Verk Sindra Leifssonar vísa einnig í handverkið en gjarnan eru það verkfærin sjálf sem nostrað er við. Sjónum er beint að vinnuferlinu með því að móta nokkuð áþekka mynd af verkfærum og máir hann þar út mörkin milli listaverksins og vinnunnar. Einföld tákn og meðhöndlun efniviðarins eru endurtekin stef í verkum Sindra en umhverfi og samfélag koma gjarnan við sögu. Sýning hans teygir sig út fyrir sýningarrýmið þar sem óljósir skúlptúrar hafa tekið sér tímabundna fótfestu í umhverfinu og er ætlað að draga fram hugmyndir um borgarskipulag og hegðun okkar í rýminu.” segir Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, listrænn stjórnandi Gerðarsafns.

Titillinn SKÚLPTÚR/ SKÚLPTÚR vísar í sýningu sem sett var upp á Kjarvalsstöðum undir sýningarstjórn Kristínar Guðnadóttur og Gunnars Kvaran, þáverandi safnstjóra, og bar hinn einfalda titil Skúlptúr / skúlptúr / skúlptúr. Þar sýndu á þriðja tug listamanna verk sín en sýningunni var ætlað að gefa yfirlit yfir höggmyndalist þess tíma. Sýningin opnaði sama ár og Gerðarsafn opnaði dyr sínar fyrir gestum í Kópavogi, eða árið 1994. Safnið er reist til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara (1928 – 1975). Um leið og dregnar eru saman tengingar við nýlega sýningarsögu og hreyfingar í samtímaskúlptúr er einnig leitast við að undirstrika vægi Gerðar Helgadóttur og framlag hennar til íslenskrar höggmyndalistar.
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com