46f6451a 8819 40ca B1fe 141151eff3af

Gerðarsafn – Listamannaspjall með Andrew Ranville, Gjörningaklúbburinn og Bandamenn listanna um helgina

Listahátíðin Cycle | Gerðarsafn – Listasafn Kópavogs 

Listamannaspjall með Andrew Ranville,
Gjörningaklúbbur og bandamenn listanna um helgina

 

Listamannaspjall með Andrew Ranville

Verið velkomin á listamannaspjall með bandaríska listamanninum Andrew Ranville á laugardaginn, 16. september kl. 13. Andrew mun ræða innsetningu sína Austur er vestur og vestur er austur, sem samanstendur af fánum smáríkja sem hafa reynt og mistekist að öðlast sjálfstæði.

Í verkinu beinir Andrew sjónum að draumalöndum sem aldrei urðu, ævintýrum mannkynssögunnar og kröfum eyríkja um fullveldi sem enn valda deilum. Safn fánanna, sem fer stækkandi eftir því sem á rannsóknina líður, setur spurningamerki við merkingu stakra hluta þess. Hver fáni táknar staði og hugmyndir sem ekki hafa reynst varanlegir og það er þessi hverfulleiki sem myndar meginþráð þeirra á milli. Verkið myndar þannig sameiginlega frásögn sem að ögrar hugmyndum um sérstæði og aðgreiningu og leggur með því áherslu á mikilvægi ferðafrelsis, hnattrænnar samstöðu og- ábyrgðarkenndar. Með verkinu vill listamaðurinn beina sjónum að þessum gildum á tímum þar sem margir virðast vera að fjarlægjast þau.

Andrew Ranville (f. 1981) er fæddur í Michigan í Bandaríkjunum. Ranville lauk meistaranámi í myndlist við Slade School of Fine Art í London 2008. Ranville vinnur innsetningar, skúlptúra, ljósmyndir og vídeóverk sem fjalla um tengsl við staði og gagnvirkni við áhorfendur. Ranville er einn stofnenda gestavinnustofunnar Rabbit Island á Lake Superior í Bandaríkjunum, er meðlimur í Royal Geographical Society og Temporal School of Experimental Geography. Ranville hefur sýnt verk sín á alþjóðlegum vettvangi þar á meðal Ástralíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Finnlandi, Kína, Marokkó, Rússlandi og Spáni.

Allir eru velkomnir á listamannaspjallið sem mun fara fram á ensku.

 

Ástarsöngvar | Verk í vinnslu og gjörningur 
Gjörningaklúbburinn, Ensemble Adapter og Juliana Hodkinsson

Gjörningaklúbburinn, Ensemble Adapter og tónskáldið Juliana Hodkinson vinna að nýju þverfaglegu sviðsverki sem samanstendur af tónlist, sviðsmynd og áhorfendum – hugsanlega óperu í fjórum (raunverulegum) hólfum. Unnið verður að gerð verksins fyrir opnum dyrum í Gerðarsafni föstudag til sunnudags. Gestum er velkomið að líta inn á framvindu á stóru þverfaglegu samvinnuverkefni.
Verkefninu lýkur með gjörningi á sunnudaginn 17. september kl. 15 og er gjörningurinn öllum opinn.

Ensemble Adapter er þýsk-íslenskur kammerhópur sem flytur nútímatónlist með aðsetur í Berlín. Kjarni hópsins samanstendur af kvartett: flauta – Kristjana Helgadóttir, klarínett – Ingólfur Vilhjálmsson, harpa – Gunnhildur Einarsdóttir og slagverk – Matthias Engler. Hópurinn heldur tónleika alþjóðlega, heldur vinnusmiðjur og vinnur að stórum þverfaglegum verkefnum.

Gjörningaklúbburinn samanstendur af listamönnunum Sigrúnu Hrólfsdóttir (f. 1973), Jóní Jónsdóttur (f. 1972) og Eirúnu Sigurðardóttur (f. 1971). Þær luku námi í myndlist við Myndistar- og handíðaskólann 1996 og hafa búið og starfað í New York, Berlín og Kaupmannahöfn og starfa eins og er í Reykjavík. Gjörningaklúbburinn hefur sýnt verk sín meðal annars í Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Japan og Rússlandi og sýndu á samsýningunni Personal Structures á Feneyjartvíæringnum 2013.

Juliana Hodkinson (f. 1971) er tónskáld og höfundur frá Bretlandi sem hefur verið búsett í Danmörku frá því hún stundaði nám við tónsmíðar. Hún nam tónlistarfræði og heimspeki við King’s College Cambridge og japönsk fræði við University of Sheffield og er með doktorspróf frá Kaupmannahafnarháskóla með viðfangsefnið þögn í tónlist og hljóðlist. Hún vinnur í ýmsa miðla: skúlptúra, raftækni og sjónræna miðla og notar talað mál í innsetningar og flutning á verkum sínum. Hún hefur kennt tónsmíðar, tónlist, fagurfræði og miðlun og hefur unnið verk fyrir alþjóðlega kammerhópa, hátíðir og stofnanir.

 

Á síðasta snúningi | Vinnustofa 

Vinnustofan Á síðasta snúningi verður haldin laugardaginn 16. september kl. 14-16. Eftir hundrað þúsund ár í klakaböndum er Norðrið að bráðna sökum loftlagsbreytinga. Hlýnun jarðar er eingöngu ein birtingarmynd á stærð þeirra umbreytinga sem framafaratrú og kapítalismi hafa haft í för með sér. Vinnustofan tekst á við þennan vanda og leitast við að þreifa á “enn mögulegri fortíð, nútíð og framtíð” (Haraway 2015) með rannsókn á sviðsmyndum og myndmáli þar sem töfrasprota myndlistarinnar er beitt á viðfangefnið. Sigurjón Baldur Hafsteinsson mannfræðingur stýrir umræðum og þátttakendur eru Ásmundur Ásmundsson myndlistarmaður, Bergsveinn Þórsson doktorsnemi á sviði menningarsögu, Erin Honeycutt rithöfundur, Hannes Lárusson myndlistarmaður, Hildur Jørgensen myndlistarmaður og sýningarstjóri og Tinna Grétarsdóttir mannfræðingur.

 

Bandamenn listanna | Fyrirlestur

Alexander Koch sýningarstjóri mun kynna framtakið Bandamenn listanna í fyrirlestri á sunnudaginn 17. september kl. 13-15. Bandamenn listanna er yfirlýsing og aðferðafræði sem miðar að lýðræðisvæðingu listanna. Markmiðið er að tengja listafólk með beinum hætti við hvers kyns þarfir eða úrlausnarefni samfélagsins. Hugmyndin er að hver sem er, einstaklingur eða hópur fólks, geti nálgast listamann og haft frumkvæði að sköpun nýs listaverks. Belgíski listamaðurinn François Hers var upphafsmaður Bandamannanna í Frakklandi í upphafi tíunda áratugarins en verkefnið hefur nú breitt úr sér og er raunverulegt breytingarafl í menningarstefnu Evrópulanda. Alexander Koch er sýningarstjóri og forgöngumaður verkefnisins í Þýskalandi og mun kynna uppruna, markmið og árangur þess.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com