Cf478cdc 7260 441c 89b6 Ad608f1a5981

Listamanna- og sýningarstjóraspjall Hafnarhús, Magnús Sigurðarson, laugardag 23. maí kl. 15

Magnús Sigurðarson, Athöfn og yfirskin

Hafnarhús – Listamanna- og sýningarstjóraspjall
laugardag 23. maí kl. 15

Markús Þór Andrésson sýningarstjóri ræðir við Magnús Sigurðarson um sýningu sína Athöfn og yfirskin á laugardaginn kl. 15 í Hafnarhúsi. Sýningin opnar í dag kl.17 en þetta er fyrsta  einkasýning hans hér á landi um langt skeið en hann hefur verið búsettur í Bandaríkjunum í yfir áratug. Á sýningunni er m.a. myndbands-og hljóðinnsetning sem listamaðurinn vann nýlega í Hallgrímskirkju og landslagsteikningar. Magnús beinir sjónum sínum að nokkrum fastapunktum tilverunnar sem er að finna bæði í náttúru og menningu. Ýmis sköpunar- og listaverk hafa öðlast gildi í leit mannsins að hinu háleita. Þau sameina að því er virðist andstæða eiginleika, eru annars vegar ægifögur og yfirgnæfandi og hins vegar látlaus og einföld. Magnús gerir tilraun til að brjóta þessi haldreipi upp í frumeindir í leit að einhvers konar kjarna og spyr í leiðinni um innri og ytri veruleika manneskjunnar og afstöðu hennar gagnvart æðri mætti. Magnús er þekktastur fyrir ljósmyndaseríur, myndbandsverk og innsetningar þar sem hann skírskotar til kunnuglegra þátta úr dægurmenningu, fjölmiðlum og almennrar vitneskju. Á sýningunni í Hafnarhúsinu tekst hann á við sammannlega þrá eftir hinu háleita en hún kann að leynast við hvert fótmál.

Spjallið hefst kl. 15. Aðgangseyrir á sýninguna er kr. 1.400, ókeypis fyrir Menningarkortshafa.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com