ásmundarsalur

Listakonan Elín Hansdóttir mun opna sýninguna Annarsstaðar / Elsewhere í Ásmundarsal, laugardaginn 7.september kl.15

Í stað þess að vinna með gríðarstóra innsetningu, líkt og Elín Hansdóttir iðulega gerir, færir hún að þessu sinni smáskalann í forgrunn inn í sögufræga sýningarsali Ásmundarsals.

Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari, teiknaði húsið og byggði sjálfur, sem óneitanlega beinir sjónum að rýmunum sem einskonar skúlptúrum, enda er það sá þáttur sem Elín nýtir sem útgangspunkt að þessu sinni. Í sýningunni leikur Elín með þau ólíku sjónarhorn sem skapast fyrir tilstilli tímans.

Í smágerðum skúlptúrum af sýningarsölum leikur hún með þekkingu áhorfandans á rýmum Ásmundar, á þekktum almenningsrýmum sem lifað hafa með borgarbúum og íslenskum listheimi í áratugi. Þetta gerir hún með því að færa inn í salina módel af þeim sjálfum sem þó fela í sér hennar eigin skálduðu þætti sem eru meira í ætt við það sem hún sjálf hefur fengist við í gegnum tíðina í allt öðrum stærðarskala; bogagöng í aðalsalnum en einskonar hringiðu í Gryfjunni.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com