404b9cc4 87cd 4a55 920b 2f525f59d7e6

 Listahátíðin Cycle í Gerðarsafni 

Alþjóðlega listahátíðin Cycle fer fram í Kópavogi dagana 27.-30. október og opnar sýningin Þá sem hluti hátíðarinnar í Gerðarsafni fimmtudaginn 27. október kl. 18. Gerðarsafn er lokað fram að því vegna uppsetningar. Kaffihúsið Garðskálinn er opinn á neðri hæð safnsins þriðjudaga til sunnudaga kl. 11-17 og er þar boðið upp á hádegisverð og kaffiveitingar.

Listahátíðin Cycle er vettvangur samtímatónlistar og myndlistar. Hátíðin verður nú haldin í annað skipti í listhúsum Kópavogs auk þess sem hún teygir anga sína út um alla Hamraborgina. Hátíðin samanstendur af sýningu í Gerðarsafni, fjölmörgum tónleikum og gjörningum auk þess sem stofnað hefur verið til samstarfs við Listaháskóla Íslands þar sem nemendum gefst kostur á að taka þátt í vinnustofum og fyrirlestraröðum með listamönnum hátíðarinnar. Hátíðin er því vettvangur listsköpunar og rannsókna sem er öllum opinn.

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Þá og ná efnistökin yfir sífelldar endurtekningar, framtíðarspár og fortíðarminni, tíminn sjálfur er í forgrunni. Um eitt hundrað íslenskir og alþjóðlegir listamenn taka þátt í hátíðinni og er samsýning erlendra og innlendra listamanna opnuð í Gerðarsafni sem hluti hátíðarinnar. Sýningin hverfist um tíma, tíma í tónlist, tímalausar endurtekningar, æfingartíma og þá hugmynd að mögulega sé til annað tilverustig í öðrum tíma. Sýningunni er stýrt af Evu Wilson, sýningarstjóra og rithöfundi með aðsetur í Berlín og London.

Dagskrá hátíðarinnar má finna á www.cycle.is og eru allir viðburðir hátíðarinnar gjaldfrjálsir.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com