20861658 1917265085154247 1757215524421097309 O+(1)

Listahátíðin Cycle | Dagskrá fyrstu viku

Cycle – Fullveldi | Nýlenda

Listahátíðin Cycle stendur yfir allan september mánuð í Gerðarsafni með myndlistarsýningu, smiðjum, vinnustofum, fyrirlestrum, kvikmyndasýningum, opnum kvöldverðum, tónleikum, kvikspuna og gjörningum. Cycle hefur staðið frá árinu 2015 og tekur nú fyrir 100 ára fullveldisafmæli Íslands með áherslu á Grænland, Færeyjar og Ísland og samband landanna við Danmörku í nútíð og fortíð.

Á dagskrá fyrstu viku listahátíðarinnar eru tónleikar, vinnustofur, kvikspuni, kvikmyndasýningar og verk í vinnslu. Að neðan má valda viðburði og er ítarleg dagskrá hátíðarinnar á heimasíðu Cycle.

 

MÖRK | Tónleikar
5. september kl. 18

Verkið Mörk er byggt á fjármörkum Suður-Þingeyinga og Keldhverfunga. Í verkinu er táknkerfi markanna þýtt inn í táknkerfi tungumáls og tónlistar, og í þeirri þýðingu verður til aukamerking sem opnar á nýjar túlkanir á upprunalega táknkerfinu. Í verkinu eru þessir eiginleikar markanna notaðir til þess að kalla fram nýja heild. Mörk er samvinnuverkefni Gunnars Andreasar Kristinssonar tónskálds, Jóhannesar Dagssonar myndlistarmanns og Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara. Flytjendur: Tinna Þorsteinsdóttir, píanó – Frank Aarnink, slagverk – Kristín Jónsdóttir, upplesari.
Aðgangseyrir á tónleikana er 1000 kr.

 

J.T.P. GL & UYARAKQ | Tónleikar
5. september kl. 20 á Kex Hostel

Rapparinn J.T.P GL frá Grænlandi treður upp ásamt DJ Uyaraqk á KEX Hostel við Skúlagötu 28 í Reykjavík. J.T.P GL er rísandi stjarna í grænlensku tónlistarlífi og sameinar með tónlist sinni einlæga sviðsframkomu og ögrandi skoðanir á grænlenskum þjóðfélagsmálum og sambandinu við Danmörku.
Aqqalu Berthelsen, sem er betur þekktur undir nafninu Uyarakq, er grænlenskur raftónlistarmaður, framleiðandi og plötusnúður.
Uyarakq hefur fengist við ólík form tónlistar, allt frá fönki til þungarokks, sem hann spilaði af mikilli innlifun þegar hann var ungur í Grænlandi og Danmörku. Í dag framleiðir Uyarakq raftónlist og hip hop fyrir rappara frá Grænlandi. Hann stendur sömuleiðis á bakvið útgáfu- og framleiðslufyrirtækið Mediahouse Qunnersuaq.

 

2031| Kvikspuni (LARP)
10. september kl. 15

“2031” er verkefni sem Ana Gzirishvili og Sara Løve Daðadóttir hafa þróað undir merkjum samstarfshópsins Utopian Union. Með aðferðum kvikspunans kanna þær útópískar hugmyndir og bjóða til leiks þeim sem að deila þránni eftir frumlegri nálgun og hinu útópíska draumalandi. Kvikspuni (Live Action Role Play) er menningarkimi þar sem hópar áhugafólks skapa og dvelja saman í ímynduðum heimi þar sem einstaklingar móta sitt eigið hlutverk. Formið gefur þannig færi á djúpri upplifun á aðstæðum sem almennt liggja utan reynsluheims einstaklingsins. Í kvikspunaleiknum í Gerðarsafni verður almenningi boðið að taka þátt í hlutverkaleik, setja sig í spor annarrar persónu og upplifa hið óvænta. Áhugasöm eru hvött til að skrá sig á nina@cycle.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com