Olofogbollasteinn Icepedition Staekkud

Listaháskóli Íslands, hádegisfyrirlestur: Ólöf Nordal

Föstudaginn 11. Nóvember kl. 13 mun Ólöf Nordal halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Ólöf Nordal nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaraprófi frá Cranbrook Academy of Art í Michigan og MFA frá höggmyndadeild Yale Háskólans í New Haven, Connecticut. Ólöf Nordal býr og starfar í Reykjavík og er dósent við Listaháskóla Íslands.

Ólöf hefur unnið með arfinn, söguna og minni þjóðarinnar í verkum sínum. Listrannsóknir hennar beinast að sjálfsmynd þjóðar á eftir-nýlendutímum, uppruna og endurspeglun þjóðsagnaminna í samtímanum og brotinu sem spegli inn í fortíðina. Ólöf leikur sér gjarnan með hugmyndafræði söfnunar, framsetningu á sýnum og það afskræmda sem fellur utan flokkunarkerfa. Verkin eru iðulega sprottin úr heimi þjóðsagna og þjóðtrúar sem Ólöf notar til að rannsaka og skoða þær vísindalegu aðferðir sem beitt er á náttúruna til að viðhalda henni, varðveita hana og skrá.

Ólöf er höfundur ýmissa útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi og má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Bríetarbrekku, minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur,  Vitid ér enn – eda hvat? í Alþingishúsinu, og umhverfislistaverkið Þúfu sem stendur við Reykjavíkurhöfn.

Nú stendur yfir sýning Ólafar Geirfugl † Pinguinus impennis, Aldauði tegundar – Síðustu sýnin í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sýningin er sérsýning innan sýningarinnar Sjónarhorn og er samstarfsverkefni Ólafar og Náttúruminjasafns Íslands, í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ljósmynd: Ólöf Nordal og Bollasteinn, Charlie Welch

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com