DSCF7377

List án landamæra í Gerðubergi 5. – 20. október

List án landamæra verður haldin dagana 5. til 20. október í Gerðubergi í ár. Auk þess fara fram viðburðir á utan-dagskrá hátíaðrinnar víða um borg. List án landamæra er listahátíð sem leggur áherslu á list fatlaðs fólks. Hátíðin var fyrst haldin árið 2003 á Evrópuári fatlaðs fólks og hefur verið haldin nær árlega síðan þá. Tilgangur hátíðarinnar er að auka menningarlegt jafnrétti og fjölbreytni með því að skapa faglegan vettvang og tækifæri fyrir fatlaða listamenn.

Hátíðin verður hefst laugardaginn 5. október kl. 15:00 í hátíðarsal Gerðubergs með veigamikilli dagskrá. Eliza Reid forsetafrú mun setja hátíðina og veita Atla Má Indriðasyni viðurkenning sem listamaður hátíðinnar 2019. Bjöllukórinn flytur nokkur lög auk þess sem flutt verður gjörningur, sýnd verða vídjóverk og brot úr nýju sviðsverki. Einnig verður Bára Halldórsdóttir með innsetningu á fyrstu hæð Gerðubergs.

Samsýning Listar án landamæra opnar samhliða opnunarhátíðinni í sýningarrými Gerðubergs á fyrstu hæð. 17 listamenn sýna verk sín og beint verður sjónum að þrívíðum verkum og verkum sem teygja sig úr hinu tvívíða yfir í hið þrívíða. Þannig má sjá teikningar sem lifna við í leirverkum, málaðar ofurhetjur og skúlptúra sem líkja eftir aukahlutum þeirra, fígúrur sem hafa verið skornar útí tré og prjónaðar í teppi og lifandi blóm sem hafa verið ræktuð upp af fræi og eftirmyndir þeirra sem skornar eru út í við. Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og er þeim ætlað að sýna alla þá breidd sem listamennirnir spanna. Leiðsög verður um sýninguna 6. október kl. 15:00 þar sem sýningarstjóri Listar án landamæra 2019, Ragnheiður Maísól Sturludóttir mun segja frá verkum á sýningunni og kynna listmenn hátíðinnar.

Helgina 12. -13. október verður listamarkaður þar sem fjöldi listamanna mun selja verk sín og handverk. Verkin verða af ýmsum toga, m.a. málverk, teikningar, útsaumur og tréverk. Þeir sem taka þátt í markaðnum eru bæðir þekktir og nýlegir listamenn. Hér gefst einstakt tækifæri til þess að næla sér í fágæt verk eftir einstaka listamenn.

Meðal annara viðburða má nefna morgunverðafund fyrir stjórnendur og skipuleggjendur menningarviðburða 18. október undir yfirskriftinni Aðgengi að menningu fyrir fatlað fólk og lokatónleika hátíðarinnar með Bjöllukór Tónstofu Valgerðar 19. október. Að auki er öflug utan-dagskrá samhliða hátíðinni. Má þar m.a. nefna verkið Kötturinn fer sína eigin leið eftir Ólaf Hauk Símonarson sem Tjarnarleikhópurinn flytur 20. október í Iðnó. Einnig verða vinnustofur, myndlistarsýningar, ljósmyndasýning og margt fleira.

List án landamæra býður stjórnendum og skipuleggjendum menningarviðburða á morgunverðarfund föstudaginn 18. október kl. 9:30 í Bergi í Gerðubergi. Yfirskrift fundarins er Aðgengi að menningu fyrir fatlað fólk. Fluttar verða þrjár hugvekjur en auk þess mun hátíðin leggja fram gátlista sem skipuleggjendur ættu að geta stuðst við til að auka aðgengi.
Boðið verður uppá morgunmat en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku á fundinum með því að senda póst með titlinum Morgunverðarfundur á netfangið info@listin.is

Alla dagskrá Listar án landamæra má sjá á heimasíðunni http://www.listin.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com