Leynigarður – sýning í Anarkíu

 

 

GEOSynA

Georg Douglas: „Leynigarður – Secret Garden“

 

Myndlistarsýningin „Leynigarður – Secret Garden“ verður opnuð laugardaginn 22. ágúst kl 15:00 í Anarkíu listasal í Kópavogi.
Á sýningunni eru olíumálverk eftir Georg Douglas, unnin 2014–2015. Innblásturinn sækir listamaðurinn að nokkru leyti í blómin, gróðurinn og fallega birtu íslenskrar náttúru. Á hinn bóginn á Georg að baki langan starfsferil á jarðvísindasviðinu sem líka hefur veitt honum innblástur og haft sterk áhrif á þessi verk. Þannig byggja myndirnar ekki eingöngu á blómkrónum, laufblöðum og stilkum, heldur ekki síður á þáttum sem eru aðeins sýnilegir í smásjá eða með sameindalíkönum, eins og frjókornum, plöntuvefjum og prótínum. Þannig opnast nýjar og stærri víddir og um leið eykst skynjun og upplifun þeirra sem skoða myndirnar. Verkin eru ekki raunsæ nema að hluta til því hlutföllum er víxlað og breytt. Þannig geta prótínspíralar skyggt á sjálf blómin og það er enginn raunverulegur forgrunnur eða bakgrunnur.

Georg Douglas er að hluta til sjálfmenntaður í myndlist og hefur lesið sér víða til en hefur líka sótt nám í Myndlistarskóla Kópavogs og Myndlistaskóla Reykjavíkur samfellt síðan 2005. Lengst hefur hann notið leiðsagnar myndlistarmannanna Bjarna Sigurbjörnssonar og Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar. Georg hefur reglulega haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum síðan 2010. Nýlega vann hann til verðlauna hjá International Artist Magazine og fékk umfjöllun í American Art Collector (mars 2015) um sum verkanna sem á sýningunni í Anarkíu.

 

Sýningin stendur til 13. september.

 

Anarkía listasalur er til húsa í Hamraborg 3, gengið inn að norðanverðu (frá Hamrabrekku). Opnunartímar eru kl. 15:00–18:00, –alla dag nema mánudaga.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com