JonLaxdal Prent

Leiðsögn um allar þrjár yfirstandandi sýningar Listasafnsins á Akureyri

Á morgun, fimmtudaginn 10. mars, kl. 12-13 verður boðið upp á leiðsögn um allar þrjár yfirstandandi sýningar Listasafnsins á Akureyri. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi og sýningarstjóri tekur á móti gestum kl. 12-12.30 í Listasafninu, Ketilhúsi og fræðir þá samsýninguna Sköpun bernskunnar 2016 sem opnaði um síðastliðna helgi. Í Listasafninu kl. 12.30-13 verður leiðsögn í umsjón Haraldar Inga Haraldssonar verkefnastjóra um sýningar Jóns Laxdal Halldórssonar…úr rústum og rusli tímans, og Noemi Niederhauser, Ráfandi skrúðganga, en báðum sýningum lýkur næstkomandi sunnudag, 13. mars. Aðgangur er ókeypis.

Gerla – Guðrún Erla Geirsdóttir, myndhöfundur og listfræðingur: Frá týndum myndlistarkonum til Guerrilla Girls

Annar fyrirlesturinn í tengslum við síðustu viku sýningar Jóns Laxdal Halldórssonar, …úr rústum og rusli tímans, og útgáfu samnefndrar viðtalsbókar Guðbrands Siglaugssonar verður á morgun, fimmtudaginn 10. mars, kl. 17.15 í Miðsal Listasafnsins á Akureyri. G.Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir myndhöfundur og listfræðingur heldur þá fyrirlestur undir yfirskriftinni Frá týndum myndlistarkonum til Guerrilla Girls og tileinkar hann Alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars sl. Aðgangur er ókeypis.

Á fyrirlestrinum verður staða kvenna innan listheimsins rædd og hversu mikið hún hefur breyst frá því skrif Lindu Nochlin „Hvers vegna hafa ekki verið til neinir miklir kvenlistamenn? birtust í ARTnews 1971. Rit sem vörðuðu leiðina í baráttunni fyrstu árin verða skoðuð og m.a. talað um ritgerð Lucy Lippard „Frá miðjunni“ frá 1976 og bók Germaine Greere „Hamlaða kynið“ frá 1979. Staðan hér innanlands verður einnig rædd og breytingar síðustu áratuga skoðaðar en G.Erla var í hópi þeirra kvenna sem stóðu að því að fá veggspjöld Guerrilla Girls á sýningu í Nýlistasafninu 1994. Hópurinn tók þá saman upplýsingar um stöðuna hér á landi og var sýningin Kvennatími – Hér og nú 30 árum síðar á Kjarvalsstöðum síðastliðið haust og þátttaka Guerilla Girls á Listahátið 2015 tilefni þess að innlenda kynjalandslagið í myndlist í dag var skoðað.

G.Erla – Guðrún Erla Geirsdóttir stundaði nám in Myndlista- og handíðaskólnum 1971-76 en hélt síðan til Amsterdam og nam þar við Gerrit Rietveld Academie 1976-1980 og lauk prófi í Monumental textíl og í leikmynda- og búninga hönnun. Um tíma var hún aðstoðarmaður listamanna í hinu þekkta gjörninga- og vídeógallerí De Appel og vann að stofnun SÍM og Myndstefs. Einnig er hún menntaður listfræðingur og með MA-gráðu í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands.

G.Erla hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið nokkrar einkasýningar, en ein fyrsta einkasýning hennar var í Rauða húsinu á Akureyri. Hún hefur í gegnum tíðina skipulagt ýmsa viðburði og myndlistasýningar t.d. Hér og nú (Kjarvalsstaðir, 1985), Landlist við Rauðavatn (Listahátíð, 2000) og Undir berum himni (Listahátíð, 2013).  G.Erla er ein af stofnendum kvennaframboðsins og Kvennalistans og sat fyrir hönd þeirra í menningarnefndum Reykjavíkurborgar. Hún var framkvæmdastýra Listahátíðar kvenna árið 1985.

Lokunarteiti Noemi Niederhauser

Einnig verður á morgun, fimmtudaginn 10. mars, kl. 15 lokunarteiti sýningar Noemi Niederhauser í Vestursalnum. Þar gefst gestum tækifæri til þess að skoða sýninguna og þiggja léttar veitingar. Athugið að sýningunni lýkur sunnudaginn 13. mars.

Listasafnið á Akureyri er opið þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com