Leiðsögn og sýningarlok

IÁ

 

Boðið verður upp á leiðsögn í Listasafninu, Ketilhúsi fimmtudaginn 16. apríl kl. 12.15 – 12.45 um yfirlitssýningu Iðunnar Ágústsdóttur. Framundan er síðasta vika sýningarinnar en henni lýkur næstkomandi sunnudag, 19. apríl. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

 

Tilefni sýningarinnar er 75 ára afmæli myndlistarkonunnar Iðunnar Ágústsdóttur sem er fædd og uppalin á Akureyri og dóttir Elísabetar Geirmundsdóttur sem oft er nefnd listakonan í Fjörunni. Sýningu á verkum Elísabetar lauk í Listasafninu 8. mars síðastliðinn.

 

Iðunn hefur fengist við myndlist síðan 1977 en fyrsta einkasýning hennar var haldin 1979 í Gallerí Háhól. Iðunn var einn meðlima Myndhópsins sem stofnaður var árið 1979 og var hún meðal annars formaður hans og gjaldkeri um tíma. Iðunn vann aðallega með olíuliti og pastelkrít í verkum sínum. Hennar helstu viðfangsefni á ferlinum eru landslagið, náttúran, fólk og hið dulræna. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Flest verka Iðunnar eru í einkaeigu en einnig í eigu ýmissa fyrirtækja og stofnana hér heima og erlendis. Yfirlitssýningin er sú fyrsta sem haldin er á verkum hennar en á sýningunni verður áhersla lögð á olíu og krítarverk hennar.

 

Sýningarstjóri er Eiríkur Arnar Magnússon myndlistarmaður, sonur Iðunnar.

 

Sýningunni lýkur 19. apríl næstkomandi og er opin þriðjudaga – sunnudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com