Spjall Einar Thorlaksson

Leiðsögn og spjall um sýningu Einars Þorlákssonar í Hverfisgalleríi

Þriðjudaginn 4. október kl. 17 mun Markús Þór Andrésson fjalla um sýningu Einars Þorlákssonar sem stendur nú yfir í Hverfisgalleríi.
Nýlega opnaði sýning á völdum verkum Einars Þorlákssonar í Hverfisgallerí. Markús Þór Andrésson sýningarstjóri býður gestum gallerísins í leiðsögn um verk Einars sem einkennast af ljóðrænni abstraksjón og leik listamannsins með liti og form.
Liðin eru tíu ár frá því að Einar Þorláksson myndlistarmaður féll frá og af því tilefni hefur verið sett upp sýning á verkum hans í Hverfisgalleríi. Ingólfur Arnarsson ritar um sýn sína á verk Einars og afstöðuna til málverksins.

Í umfjöllun Ingólfs Arnarssonar um verk Einars Þorlákssonar segir m.a.
Myndir Einars voru sérstakar, og sumpart ólíkar öðru sem var í gangi. Til útskýringar á þessari sérstöðu hefur bæði verið vísað til náms Einars í Hollandi, sem var langt frá því að vera uppeldisstöð íslenskra myndlistarmanna á þeim tíma, og til sérlegs áhuga hans á súrrealisma. Sjálfsagt er það satt og rétt en ég skynja dýpri, fjölbreyttari og mótsagnarkenndari áhrif, tengd formi, innihaldi, lit og myndskipan. Einar tekst á við margar af grunnstoðum myndlistarinnar sem eru ekki einungis tengdar list hans nánasta samtíma. Tekist er á við grundvallarhugmyndina um hreina og óhlutbundna tjáningu, sem forðast samanburð við raunheima, andspænis hlutbundinni myndlist og hvar listamaðurinn staðsetur sig milli þessara póla. Á sama hátt er velt upp spurningunni um undirvitundina og tjáningu hennar í gegnum misósjálfráða eða sjálfráða tjáningu, um samband dulvitundar og vitundar. Úr heimi tónlistarinnar, sem í eðli sínu er óhlutbundin tjáning, mætti vísa til sambands tónlistarmanna við hefðina: lagrænu, rytma og samhljóm andspænis þáttum svo sem áferð eða hljóðinu sjálfu. Nærtækt er að benda á hvernig spunatónlist sveiflast milli þess að vera tilbrigði við stef yfir í frjálsan spuna með hljóðið sjálft sem efnivið, án tilvísana. Einar hefur greinilega haft viðtæka þekkingu á blæbrigðum hreyfinga óhlutbundinnar tjáningar. Þetta er hægt að skynja í málverkum hans. Hann dansar á margræðan og persónulegan hátt umhverfis einhverja miðju.
Einar Þorláksson var fæddur í Reykjavík 1933 og lést 2006.
Nám við Gooise Academie voor Beeldende Kunsten í Laren í Hollandi 1954–55, Det Kgl. Akademi for de Skønne Kunster í Kaupmannahöfn 1955–56, Statens Kunstakademi í Osló 1956–57 og Statens Handverks- og Kunstindustriskole í Osló 1957–58. Námsferðir um Evrópu og lengst dvöl í Flórens 1957.
Einkasýningar: Listamannaskálinn 1962, Unuhús 1969, Casa Nova 1971, Norræna húsið 1975, Gallerí Sólon Íslandus 1977, Bókasafn Ísafjarðar 1977, Norræna húsið 1981, Gallerí íslensk list 1985, Listhús 1990, Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn 1998. Þátttaka í samsýningum frá 1948. Myndir í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Háskólans, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Kópavogs, Listasafns Siglufjarðar og Arion banka.
Markús Þór Andrésson (f. 1975) er menntaður í sýningarstjórn frá Center for Curatorial Studies, Bard College í Bandaríkjunum. Áður nam hann listsköpun við Listaháskóla Íslands. Hann starfar sjálfstætt sem sýningarstjóri, textasmiður og leikstjóri heimildarmynda og sjónvarpsþátta um myndlist.
Sýning Einars Þorlákssonar stendur til 8. október.

 

Nánari upplýsingar veitir:

 

Sigríður L. Gunnarsdóttir

Netfang: sigridur@hverfisgalleri.is

Sími: +354 537 4007 / +354 864 9692

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com