9460fbeb 85c1 4551 9131 44a793cb6f62

Leiðsögn með Rebecca Erin Moran, fimmtudag 19. október kl. 20.00 í Hafnarhúsi

Leiðsögn með Rebecca Erin Moran
Fimmtudag 19. október kl. 20.00 í Hafnarhúsi

Myndlistamaðurinn Rebecca Erin Moran tekur þátt í leiðsögn um sýninguna Stór-Ísland. Hún vinnur í fjölbreytta miðla; innsetningar, skúlptúr, gjörningar og myndvarpannir. Rebecca Erin Moran fæddist árið 1976 í Greeley í Colorado í Bandaríkjunum. Eftir að hafa lokið BFA-námi við Listaskólann í Chicago, flutti hún til Hollands og síðan til Íslands árið 2005. Rebecca býr og starfar í Reykjavík.

Á sýningunni Stór-Ísland eru sýnd verk sjö listamanna, það eru Anna Hallin, Claudia Hausfeld, Jeannette Castioni, Joris Rademaker, Rebecca Erin Moran, Sari Cedergren og Theresa Himmer. Listamennirnir koma frá Svíþjóð, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Bandaríkjunum, Finnlandi og Danmörku en hafa búið og starfað á Íslandi um lengri eða skemmri tíma.

Listamennirnir fengu frjálsar hendur við að velja hvaða verk þeir vildu sýna. Áhrifin gætu orðið eitthvað í líkingu við að heyra nokkur móðurmál töluð í einu. Stór-Ísland getur verið staður þar sem listin afhjúpar ólýsanlegar tilfinningar og „túlkar“ hugtök með ímyndum sem standa stakar en ekki einar.

Í orðinu „Stór“ í heiti sýningarinnar má sjá tilvísun í fjölbreytileikann sem hefur gert sig heimakominn á listasviðinu á Íslandi í marga áratugi. Ef nefna á listamann sem gerði Ísland að heimili sínu og hafði áhrif, mun margt málsmetandi fólk í listaheiminum vilja nefna Dieter Roth (f. í Þýskalandi 1930, d. 1998 í Sviss) sem flutti til Íslands seint á sjötta áratugnum og varð íslenskur ríkisborgari. Stór-Ísland vísar þannig til þeirra möguleika sem þessu listafólki eru færir, einstakrar innsýnar þess og framlagi til listarinnar.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com