BaldvinRingsted Prent

Leiðsögn í Listasafninu á Akureyri – sýningar Jóns Laxdal Halldórssonar

Fimmtudaginn 18. febrúar kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri um sýningar Jóns Laxdal Halldórssonar, …úr rústum og rusli tímans, og Baldvins Ringsted, Snarstefjun, annar hluti: Bárujárnsárin, sem var opnuð um síðustu helgi. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi Listasafnsins tekur á móti gestum og fræðir þá um sýningarnar og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

Jón Laxdal Halldórsson (f. 1950) nam heimspeki við Háskóla Íslands og gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974. Jón var einn þeirra sem stóðu að blómlegri starfsemi Rauða hússins á Akureyri og setti þar upp sína fyrstu

einkasýningu árið 1982. Klippimyndir hafa verið hans helsta viðfangsefni allar götur síðan. Verkum Jóns má lýsa sem ljóðrænni naumhyggju en þau spanna í raun mun víðara svið. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum

sýningum víðs vegar um heim og þau er að finna á fjölda safna. Á sýningunni …úr rústum og rusli tímans má sjá verk frá löngum ferli Jóns Laxdal Halldórssonar sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna.

Baldvin Ringsted (f. 1974) vinnur með ýmis efni og miðla; innsetningar, málverk, skúlptúra, hljóð og vídeó. Hann hefur sýnt víða um heim, bæði á samsýningum og einkasýningum. Baldvin sækir efnistök verkanna oftast að einhverju leyti í þekkingu sína og reynslu af tónlist og hljóðfæraleik. Verk hans skoða annars vegar sambandið á milli hljóðs og mynda og hins vegar á milli sögu og strúktúrs. Sýningin Snarstefjun, annar hluti: Bárujárnsárin er framhald á vinnu Baldvins með tónlist og tungumál sem og tilraunir með strúktúr og afbyggingu í málverki. Baldvin: „Mikilvægur hluti sköpunarferlisins er þegar ég set mér ramma eða einhvers konar reglur í upphafi vinnunnar, líkt og vanalega er gert í snarstefjun (e. improvisation) í jass- og blústónlist. Ferlið á sér líka sterka skírskotun í tónverkum nútímatónskálda á borð við John Cage og Steve Reich.“

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com