Leiðsögn í Listasafninu á Akureyri: Sjónmennt 2015

 

Á morgun, fimmtudaginn 21. maí, kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri um útskriftarsýningu Myndlistaskólans á Akureyri, Sjónmennt 2015. Hlynur Hallsson safnstjóri og útskriftarnemar taka á móti gestum og fræða þá um sýninguna.

 

Á sýningunni má sjá fjölbreytt verk; leturhönnun, málverk, skúlptúra, innsetningar, ímyndasköpun, hljóðverk, vídeóverk og vöruhönnun. Verkin eru mörg persónuleg og innblástur þeirra er m.a. dreginn frá æskuslóðum við Jökulsá á Dal, gömlu handritunum, áhrifum tónlistar á sköpunarferlið, vangaveltum um erfðir og listrænum möguleika á nýtingu grjóts úr Holuhrauni og Vaðlaheiðargöngunum svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er í fyrsta sinn sem sýningin fer fram í Listasafninu á Akureyri.

Listhönnunardeild – grafísk hönnun: Eidís Anna Björnsdóttir, Eva Björg Óskarsdóttir, Harpa Stefánsdóttir, Ívar Freyr Kárason, Linda Þuríður Helgadóttir, Perla Sigurðardóttir, Svala Hrönn Sveinsdóttir, Svanhildur Edda Kristjánsdóttir.

Fagurlistadeild – frjáls myndlist: Elísabet Inga Ásgrímsdóttir, James Earl Ero Cisneros Tamidles, Jónína Björg Helgadóttir, Margrét Kristín Karlsdóttir, Sigrún Birna Sigtryggsdóttir.
Sýningin stendur til 7. júní og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17, en frá 2. júní kl. 10-17. Aðgangur er ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com