Hringbord

Laumulistasamsteypan 2019 kynnir: Hirðfífl hringborðsins

Átján hirðfífl munu sameinast við hringborð Laumulistasamsteypunnar í Sæborg, Hrísey, milli 9. og 19. ágúst.

Á borðinu er spilað uppá líf og skopparabolta; rússnesk þörunga-rúlletta,
tíðnisskák og möguleika bingó. Í tíu daga mun Laumulistasamsteypan hrærast í þykku lagi af leikjum og nýta þá til umræðu og ákvarðana, hugsanagangs og ráðabruggs.

Leikur sem samskiptaform
Leikur sem tekur tólf ár
Leikur sem harkar af sér
Leikur sérhannaður fyrir jalape ñ o bóndann Tweety
Leikur á stærð við eyju
Leikur sem erfiðisvinna
Leikur dulbúinn sem morgunmatur
Leikur sem syngur þig í svefn

Meðlimir Laumulistasamsteypunnar 2019 eru 18 listamenn, tónlistamenn, hönnuðir og sýningastjórar. Þau eru Susan van Veen, Helena Aðalsteinsdóttir, Bára Bjarnadóttir, Saulė Noreikaitė, Harriet Lansdown, Ned Armstrong, Ásgerður Birna Björnsdóttir, Hrefna Guðmundsdóttir, Arna María Kristjánsdóttir, Austin Redman, Sara Björg Bjarnadóttir, Jessie
Krish, Alex Bex, Josephine van Schendel, Alexía Rós Gylfadóttir, Veigar Ölnir Gunnarsson, Jesse Rivers og Árni Jónsson.

Helgina 17. – 18. ágúst er gestum velkomið að kíkja við í Sæborg og kasta teningum með Laumulistasamsteypunni. Í Hrísey er nóg af tjaldstæðum fyrir ferðalanga og kaffikannan á Hámundarstöðum svíkur engann.

Laumulistasamsteypan er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarstofu.
@laumulistasamsteypan
www.laumulistasamsteypan.com

Laumulistasamsteypan samanstendur af hópi listamanna sem dvelja árlega og tímabundið saman í Hrísey, í Eyjafirði. Hún er residensía, matarklúbbur, furðuverk, hátíð, gengi, óvarpaður raunveruleikaþáttur, leiðangur, kommúna, útvarpsstöð og stuðningshópur en kannski fyrst og fremst sumarbúðir fyrir friðlausa listamenn.

Ásgerður Birna Björnsdóttir og Helena Aðalsteinsdóttir stofnuðu Laumulistasamsteypuna árið 2014 en hún er síbreytileg amaba þar sem lögun hennar ræðst af þörfum hópsins og skipuleggjenda. Stundum teygir samsteypan anga sína út fyrir landsteinana en á öðrum tímum
skreppur hún aftur saman í kjarnastærð.

Laumulistasamsteypan býður þátttakendum uppá tækifæri til þess að breyta sínum skapandi vendipunkti um stund, marinerast með öðrum heilum og beina allri sinni orku og athygli að því verkefni sem liggur fyrir hverju sinni. Samsteypan getur virkað sem listrænt vítamín fyrir þátttakendur sem síast inn smám saman og lætur á sér kræla á óvæntum sviðum, jafnvel mánuðum eftir að samvistinni lýkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com