Laugardaginn 21. mars opnar Kunstschlager Stofa í Listasafni Reykjavíkur

20150304_111704
Kunstschlager Stofa verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, laugardaginn 21. mars kl. 16.

Í Kunstschlager Stofu, sem verður á annarri hæð Hafnarhússins, geta gestir gengið um, staldrað við og upplifað hið einstaka Kunstschlager andrúmsloft. Í stofunni verða hljóð- og vídeóverk, tvívíð- og þrívíð verk ásamt sérhönnuðum Kunstschlager húsgögnum þar sem hægt er að láta fara vel um sig.
Í stofunni verður boðið uppá fjölbreytta dagskrá í ýmsum miðlum sem tekur örum breytingum svo áhugasamir eru hvattir til að fylgjast vel með. Á fimmtudögum verða jafnframt margs konar viðburðir.

Með tímanum verður hægt að fylgjast með Kunstschlager Stofu í beinni útsendingu á heimasíðu Kunstschlager sem opnar á næstunni.
Kunstschlager hópurinn flytur alla starfsemi sína í Hafnarhúsið og er þetta í fyrsta skipti sem Listasafn Reykjavíkur ræðst í samstarf af þessu tagi. Hópurinn mun starfa í húsinu til septemberloka 2015.

Í tengslum við Kunstschlager Stofu verða nýjungar á boðstólnum í Safnbúð Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsi.
Kunstschlager var stofnaður árið 2012 og hélt úti sýningarrými og basar á Rauðarárstíg til ársins 2014. Átta myndlistamenn og einn listfræðingur standa nú að Kunstchlager en í gegnum tíðina hafa ýmsir starfað í kringum hann.

Kunstschlager hefur getið af sér gott orð fyrir öfluga dagskrá og sérstaka stemningu. Alls voru 38 sýningar haldnar í húsakynnum hans á Rauðarárstíg en Kunstsclager-hópurinn hefur haldið sýningar víða t.d. Kunstchlager á rottunni í Verksmiðjunni á Hjalteyri, í Galleria Huuto í Finnlandi og Studio 44 í Stokkhólmi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com