Untitled 1

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar kallar eftir tillögum að framlagi Íslands til 57. alþjóðlega myndlistartvíæringsins í Feneyjum 2017

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar kallar eftir tillögum að framlagi Íslands til 57. alþjóðlega myndlistartvíæringsins í Feneyjum 2017.

Feneyjatvíæringurinn er einn elsti og virtasti listviðburður heims, stofnaður árið 1895. Ísland hefur tekið þátt í tvíæringnum frá 1960. Til margra ára, eða allt frá 1984, var íslenska sýningin í finnska skálanum sem var leigður af Finnum, en sá skáli er staðsettur inni í hinum svonefndu Görðum tvíæringsins þar sem margar þjóðir hafa byggt sína eigin skála. Frá því að Kynningarmiðstöðin tók við framkvæmd verkefnisins árið 2007 hefur íslenski skálinn hins vegar verið staðsettur í húsnæði víðs vegar um borgina.

Þeir Steingrímur Eyfjörð (2007) og Ragnar Kjartansson (2009) sýndu í hinu aldagamla og fagra rými Palazzo Michiel dal Brusa við Canal Grande, en Libia Castro og Ólafur Ólafsson (2011) og Katrín Sigurðardóttir (2013) sýndu í gömlu þvottahúsi Palazzo Zenobio í Collegio Armeno Moorat-Raphael í Dorsoduro, sem er staðsett inni í fallegum rósagarði sem er ekki að finna á hverju strái í Feneyjaborg. Á síðasta ári sýndi Christoph Büchel í kirkjunni Santa Maria della Misericordia, og stendur nú yfir leit að nýju rými fyrir næstu sýningu.

Hátt í hundrað lönd taka að jafnaði þátt í Feneyjatvíæringnum. Árið 2015 sóttu yfir 500 þúsund gestir tvíæringinn á því sjö mánaða tímabili sem sýningin stóð yfir og fullyrða má að allir áhrifaaðilar hins alþjóðlega myndlistarheims mæti þar til leiks. Þeir listamenn sem hafa komið fram fyrir hönd Íslands á Feneyjatvíæringnum starfa á alþjóðlegum vettvangi og hafa skapað sér nafn bæði hérlendis og erlendis. Sýningarnar hafa vakið mikla athygli og hafa stuðlað að auknu vægi og sýnileika íslenskrar myndlistar á alþjóðavettvangi.

 

Kynningarmiðstöðin kallar nú öðru sinni eftir tillögum að framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins, en sá háttur var í fyrsta skipti hafður á fyrir sýninguna 2015. Sérstakur vinnuhópur hefur farið yfir valferlið og endurmetið það með hliðsjón af því hvernig aðrar þjóðir hafa verið að þróa það með sér undanfarin ár.

Að þessu sinni verður valferlið í tveimur þrepum:

– Frestur til að skila inn tillögu er 1. apríl 2016. Fagráð KÍM, auk tveggja gesta, mun fara yfir allar innsendar tillögur og síðan velja úr þeim þrjár tillögur til nánari útfærslu fyrir lokaval. Stefnt er að því að tilkynna 22. apríl n.k. nöfn þeirra sem standa að þeim þremur tillögum sem verða þannig valdar.

– Þeim umsækjendum sem verður boðið að vinna tillögur sínar áfram verður úthlutað 250.000 krónum til að vinna að útfærslu tillögunnar.

Í júní verður síðan tilkynnt um hver af tillögunum þremur verður valin til að vera framlag Íslands í Feneyjum 2017.

Frekari upplýsingar og leiðbeiningar fyrir umsóknarferli er hægt að nálgast á www.icelandicartcenter.is og hjá Björgu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra KÍM: bjorg@icelandicartcenter.is, sími: 562 7262.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com