Kunstschlager – 19 listamenn sýna ný verk á sýningunni Kyrralíf í Hafnarhúsi, laugardaginn 25. júlí

    
Kyrralíf-Kunstschlager

19 listamenn á Kyrralíf Opnun 25. júlí

19 listamenn sýna ný verk á Kyrralíf, fjórðu sýningu Kunstschlager í D-sal Hafnarhússins sem opnar laugardaginn 25. júlí klukkan 15. Markmið sýningarinnar er að vekja upp samtal við kyrralífið og veita innsýn í þær aðferðir sem samtímalistamenn beita er þeir takast á við þessa klassísku myndgerð. Sýningin er þannig viss tilraun til þess að sjá hvað gerist þegar hið gamla mætir hinu nýja. Breytast viðfangsefnin með auknu upplýsinga- og tækniflæði? Hvað er kyrralíf nú til dags?

Listamennirnir á þessari sýningu fengu einfalt verkefni: Að birta sjónrænt viðbragð sitt við tilteknum hlut. Stuttermabolur, hrista, pottablóm, nærbuxur og aðrir hversdagslegir hlutir birtast hér sem megin innblástur verka þeirra og afraksturinn liggur í nýju sjónarhorni á þessa sömu hluti. Með því hleypa listamennirnir áhorfandanum inn í hugsunarferli sitt. Ferli sem fer röklega í gegnum upplifun hins einstaka hlutar, allt frá uppgötvun hans, til skoðunar og rýni, allt þar til honum er gefið nýtt hlutverk innan þess samhengis sem verður til við slíkar uppgötvanir.

Ákveðinn hlutur heltekur huga listamannanna og iðju; hann virkjar ímyndunaraflið og öðlast veigamikinn sess innan um hugarheim þeirra. Hvaðeina hefur möguleikann á því að verða listrænn efniviður; það getur verið form, áferð, lykt eða einföld hreyfing. Kyrralífið snýst um listina að taka eftir og að vera vakandi gagnvart eigin upplifunum. Hversdagsleikinn er uppblásinn og það sem veitir okkur innblástur til listsköpunar er í nærmynd. Listamennirnir á þessari sýningu fara fjölbreyttar leiðir til að endurtúlka hversdagslegar aðstæður og veita okkur innsýn í þetta einstaka ferli sem hefst við ör-viðburð.

Upphengi sýningarinnar tekst á við hina klassísku skilgreiningu á kyrralífsmálverki; sem smekklegri uppstillingu margra ólíkra og lífvana hluta. Það er út frá þessum hversdagsleika sem við drögum upp þá fjölbreyttu mynd af því sem umlykur okkur hverju sinni og á sama tíma uppgötvum við hvernig við skilgreinum okkur í henni. Áhorfendur eru þannig hvattir til að endurmeta hversdagsleika sinn og rýna í þær frásagnir sem í honum kunna að felast. Sýningin stendur til 9. ágúst.

Listamenn: 
•    Auður Lóa Guðnadóttir
•    Arna Óttarsdóttir
•    Björk Viggósdóttir
•    Bergur Thomas Anderson
•    Starkarður Sigurðarson
•    Sindri Snær Leifsson
•    Skúli Árnason
•    Ragnar Már Nikulásson
•    Ragnar Jónasson
•    Loji Höskuldsson
•    Ívar Glói Gunnarsson
•    Helga Páley Friðþjófsdóttir
•    Hrefna Sigurðardóttir
•    Logi Bjarnason
•    Einar Garibaldi Eiríksson
•    Þuríður Rós Sigurþórsdóttir
•    Þór Sigurþórsson
•    Þórhildur Jónsdóttir
•    Þorvaldur Jónsson

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com