KSJ

Kristján Steingrímur í BERG Contemporary

Kristján Steingrímur Jónsson mun opna einkasýningu í BERG Contemporary að Klapparstíg 16, laugardaginn 11. mars kl. 17:00.

Efniviður og viðfangsefni Kristjáns Steingríms eru bæði hlutbundið brot af stað, sem og hugmyndir, minningar eða hugtök um staði og eru verkin unnin á yfir 20 ára tímabili.

Á sýningu sinni í BERG Contemporary sýnir Kristján Steingrímur Jónsson verk unnin í margskonar miðla á um það bil tuttugu ára tímabili. Hér er þó ekki um neins konar yfirlit að ræða heldur innsýn inn í margþætta nálgun listamannsins á sama viðfangsefni. Með því að vinna síendurtekið með svipuð mengi hugmynda verður til ákveðin heild sem ber vott um einurð og staðfestu, ekki endurtekningar, þróun sem er byggð á sífelldum tilraunum.

Staðir eiga sér margskonar tíma. Það er hægt að hugsa sér jarðsögulegan tíma sem tíma staðar, hvenær gaus Hekla síðast, hvenær lauk ísöld? Eða menningarsögulegan tíma, ákveðin tímabil sögunnar hafa áhrif á borgir og torg, skipulag og fagurfræði. Þessar tegundir tíma, þessar mismunandi leiðir til að mæla og hugsa um tíma hafa áhrif á það hvað við fellum undir hugtakið staður, áhrif á hvað við leiðum hugann að, þegar við hugsum um stað. En það má einnig horfa á staði út frá annars konar tíma-aðgreiningu, staðinn á meðan við erum þar og staðinn án okkar. Hér verður staður að fyrirbæri sem við lifum og reynum á okkur sjálfum, hann hættir að vera óhlutbundin stærð á algildum mælikvarða og verður hluti af reynslu okkar og þeirri reglu sem hún raðast niður eftir. Minni er stundum notað sem nafn á þeirri reglu. Staður er þannig háður skynjun okkar og minni og staðsetning hans er ekki síður háð tíma en rúmi.

Efniviður og viðfangsefni Kristjáns Steingríms eru bæði hlutbundið brot af stað, sem og hugmyndir, minningar eða hugtök um staði. Hlutbundna brotið getur jafnvel verið steinn eða lúka af mold. Efni sem síðan er mulið niður, blandað, fléttað saman við nýtt efni og gert sýnilegt í nýju samhengi, samhengi verksins.
Málverkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að efnið í þau er fengið og unnið með þessum hætti. Til dæmis er svört ströndin hér efnisgerð, smæstu kornin fyrst og er svo hlaðin upp með stærri og stærri ögnum. Sterk efniskennd verkanna kallast á við ákveðinn stað og persónulega upplifun. Verkin eru þannig hlutgerð minning um ákveðinn stað.

Í teikningunum er staður fram viðfangsefnið, en nú tekur greiningin á sig aðra mynd. Með því að stækka margfalt upp eina efnisögn, eru hugmyndir um stað og hugmyndir um sýnileika víslagðar og verða umfjöllunarefnið. Þetta eru tilraunir til að greina og gera sýnilegt það sem er okkur ósýnilegt, samband okkar við stað, sem efnislegt fyrirbæri og sem hugtak yfir samansafn eiginleika.
Á hverjum stað skynjum við yfirborð hans. Við sjáum sólina endurspeglast í rúðunni, eða vindinn sveigja trén. En skynjun okkar endar ekki þar. Við skynjum líka sögu staðanna, efnið sem eir eru myndaðir úr og nafnið sem við notum til að vísa til þeirra. Það má hugsa sér þetta sem mismunandi merkingarlög sem hlaðast hvert ofan á annað og búa þannig til nýtt yfirborð sem er æði sýnilegt og aðeins aðgengilegt í gegnum hugsun eða hugtök.

Sumir staðir eru aðeins til í ímyndunaraflinu, en verk Kristjáns Steingríms fjalla ekki um slíka staði. Þau eru efnisleg staðfesting á tilveru staðar og áminning um að þeir eru jafnframt huglægir og háðir upplifun. Sumir þessara staða eru ekki til lengur og minna því verkin á þá ábyrgð sem felst í því að búa til staði og eyðileggja þá og fjalla um þann veruleika sem felst í því að geta útmáð, ekki síður en skapað.

Kristján Steingrímur lauk námi í myndlist við myndlistarakdemíuna í Hamborg 1987 og hefur hann haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Auk þessvar Kristján deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands frá 1999 til 2016. Málverkið hefur gengið sem rauður þráður í gegnum listferil Kristjáns. Hann hefur beitt því á mismunandi vegu og reynt á þanþol miðilsins í verkum sínum, ekki með það sem markmið, heldur sem leið til að setja fram og greina viðfangsefni sín.

Jóhannes Dagsson

https://www.artsy.net/artist/kristjan-steingrimur-jonsson

http://bergcontemporary.is/

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com