Drawing In Round Frame Ii 2015

Kristján Guðmundsson sýnir í Gallerí Úthverfu

Laugardaginn 29. október 2016, sama dag og kosið verður til alþingis, opnar Kristján Guðmundsson sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði.  Kristján opnaði fyrst sýningu á kosningadegi árið 1987 og síðan þá hefur skapast ákveðin hefð fyrir því að listamaðurinn komi vestur með sýningu þegar kosið er til alþingis.

Kristján Guðmundsson (1941) hóf listferil sinn snemma á sjöunda áratug síðustu aldar.  Hann varð strax félagi í SÚM – hópi ungra framsækinna listamanna sem unnu með konsept og innsetningar sem þá voru að ryðja sér til rúms.

Hann bjó í Hollandi á áttunda áratugnum og komst þá í nánari tengsl við þá avant-garde strauma og stefnur sem voru ráðandi í listheiminum á þeim tíma.

Kristján hefur búið á Íslandi síðan 1979.  Hann er í hópi virtustu listamanna þjóðarinnar, list hans hefur verið lýst þannig að hún er bæði í takt við þær hefðir sem ráðið hafa ferðinni í vestrænni samtímalista á seinni hluta síðustu aldar og er jafnframt merkilegt innlegg í margbrotið tímabil abstrakt- og konsept-listar eftirstríðsáranna hér á landi.

Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 1993 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir list sína, m.a. sænsku Carnegie verðlaunin.

Á sýningunni í Úthverfu verða sex verk frá árunum 1972-2015.  Verkin eru öll til sölu.

Sýning Kristjáns opnar kl. 16 laugardaginn 29. október, hún stendur til sunnudagsins 27. nóvember og er opin eftir hádegi virka daga og/eða eftir samkomulagi.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Ísafjarðarbær styrkja rekstur Gallerís Úthverfu.

 

OUTVERT ART SPACE / Gallerí Úthverfa

opið eftir samkomulagi / open by appointment

ArtsIceland – Aðalstræti 22 – 400 Ísafjörður

www.kolsalt.is  +354 868 1845   galleryoutvert@gmail.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com