GalleryPort

Kristín Morthens – Það sem fer í hring

Laugardaginn 26. október kl. 16:00 opnar Kristín Morthens sýninguna Það sem fer í hring í Gallery Port, Laugavegi 23b. 

Á sýningunni Það sem fer í hring kannar Kristín Morthens hringformið útfrá tilfinningum og táknfræði. Í málverkunum birtist hringurinn ýmist sem spírall, lykkja eða ormur sem bítur í skottið á sér. Verkin innihalda vökvakennd, lífræn form unnin með olíu og eru mótuð útfrá hreyfingu pensilstroka, þau standa á móti möttum spreyjuðum flötum sem vísa til frum-stafrænna myndvinnsluforrita. Myndirnar virka sem sjónrænar klippimyndir þar sem skörp skil þessara flata gera það að verkum að viðfangsefnið ýmist flýtur eða sekkur á myndfletinum.

“Að loka hring er ómögulegt. Jafnvel hringur hringsnýst, hringrás sem gefur til kynna eðlislæga hreyfingu, stöðugt frávik frá hinu óaðskiljanlega (pi, ómögulegt að reikna til enda, en þó hægt að gera sér grein fyrir). Hægt að gera sér grein fyrir hringi en þó ómögulegt að framkvæma hann… Brún hringsins er frávik, brúnin er aldrei alger.” Úr bók Timothy Morton’s, Dark Ecology.

Með endurtekningu hringsins í bæði myndbyggingu og formum miðlar Kristín frásögnum útfrá persónulegum upplifunum. Þó svo verkin séu abstrakt í grunninn taka þau á sig fígúratífa mynd með lífrænu formunum og táknfræðilegum skírskotunum eins og gulum hring í efra horni myndflatarins sem vísar í sólina. Verkin byggir hún upp með mismunandi lögum þar sem upphafspunktur verks virkar oft sem endapunktur. Útfrá því eru hugmyndir um ofan á/undir, upphaf/endi og hringrás endanleika kannaðar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com