Vatnslitur 12×19,5 Cm 2017 02

Kristbergur Ó. Pétursson sýnir í SÍM salnum

Föstudaginn 7.júlí kl. 17:00 opnar í SÍM salnum, Hafnarstræti 16, sýning Kristbergs Ó. Péturssonar. 

Kristbergur Ó. Pétursson stundaði myndlistarnám við Myndlista og Handíðaskóla Íslands 1979 til ´85 og síðan við Ríkisakademíuna í Amsterdam 1985 til´88. hann hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun listamanna og verk eftir hann eru í nokkrum helstu söfnum landsins. Helstu miðlar hans eru olíumálverk og vatnslitir.

Um verkin á sýningunni segir Kristbergur:

Sumarið 2002 starfaði ég sem gæslumaður á fuglaverndarsvæðinu við Ástjörn nálægt Hafnarfirði. Starfsmannaaðstaðan var lítill vinnuskúr. Ég hafði vatnslitina með mér og greip í pensil þegar tími gafst til. Náttúrufegurðin þarna hafði djúp áhrif á mig. Ég hafði aldrei áður varið svo miklum tíma í kyrrð og einveru, fjarri ysnum í borg og bæ. Í dag er Ástjörn nánast umkringd byggð og eftirlit með varpsvæðinu löngu aflagt. í vinnuskúrnum var útvarpstæki sem ég hlustaði mikið á. Þá voru tíðar fréttir af landspjöllum, á Reykjanesinu og víðar um land, vegna utanvegaaksturs og annars glæfraskapar sem skildi eftir sig ljót sár á landinu. Verkin tengjast hugleiðingum mínum og tilfinningum vegna þess gáleysis og hirðuleysis sem er alltof algengt í umgengni við landið.

Þessar myndir eru frekar minimalískar, ef þær eru landslag þá er það snautt af sterkum einkennum svosem fjöllum og fossum og öðru sem vekur athygli og snertir strengi. Þetta er ekki landslag póstkortanna og túristabæklinganna. Frekar landið sem við lítum áhugalausum augum útum bílrúðuna meðan við þeysum á milli áningarstaða. Heiðar, móar og melir.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com