Thumbnail Olöf Tilraun Um Torf

Kompan, Siglufirði: Villiljós – Ólöf Nordal

Ólöf Nordal opnar sýninguna Villiljós í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði föstudaginn 9. júlí kl. 14.00. Sýningin stendur til 25. júlí og er opin daglega kl. 14.00 – 17.00.

Villiljós.

Ólöf hefur í verkum sínum unnið með íslenskan menningararf, sögur og minni. Listrannsóknir hennar beinast að sjálfsmynd þjóðarinnar á eftirnýlendutímum, uppruna og endurspeglun þjóðsagnaminna í samtímanum og brotunum sem spegla aftur til fortíðar. Ólöf leikur sér gjarnan með hugmyndafræði söfnunar og framsetningu á sýnum, og teflir einnig fram því afskræmda sem fellur utan flokkunarkerfa. Verkin eru iðulega sprottin úr heimi þjóðsagna og þjóðtrúar og nýtir Ólöf sér til eigin rannsókna þær vísindalegu aðferðir sem beitt er á náttúruna til að viðhalda henni, varðveita og skrá.

Tilraun um torf er verkefni sem Ólöf hefur verið að vinna að samhliða annarri listsköpun. Þar er hið ævagamla byggingarefni mýrartorf skoðað út frá forsendum myndlistar. Efnið sem slíkt hefur víða skírskotun meðal annars í jarðfræði, vistfræði og menningarsögu. Skoðað er hvernig samtíminn skynjar efnið á annan hátt en gengnar kynslóðir og reynt er að gefa torfinu nýja merkingu og form innan samtímamyndlistar. Á sýningunni Hélog beinir Ólöf auganu að mýrarrauða sem efni til myndsköpunar auk torfs og mós.

Torfið og mýrarrauðinn er fenginn úr landi Kringlumýrar í Skagafirðinum.

Ólöf Nordal nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Gerrit Rietveld akademíuna í Amsterdam, lauk meistaraprófi frá Cranbrook Academy of Art í Michigan og síðar meistaraprófi frá höggmyndadeild Yale háskólans í New Haven, Connecticut, í Bandaríkjunum. Ólöf er prófessor í myndlist við Listaháskóla Íslands.

Verk Ólafar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi en einnig alþjóðlega og eru hluti af safneignum helstu safna hérlendis. Hún er höfundur ýmissa útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi, má þar nefna Geirfugl í Skerjafirði, Vituð ér enn – eða hvat? í anddyri Alþingishússins, Bríetarbrekku við Þingholtsstræti og umhverfislistarverkið Þúfu sem stendur úti á Granda við Reykjavíkurhöfn. Nú í vetur var sett upp útilistaverkið Hella Rock í Portland Maine og á vordögum var afhjúpað verkið Auga í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Þann 17. júní síðastliðinn var Ólöf Nordal útnefnd sem Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar 2021.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com