Mynd Kompan

Kompan 9. – 23. mars 2019 Ólöf Helga Helgadóttir

Laugardaginn 9. mars kl. 15.00 opnar Ólöf Helga Helgadóttir sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina Maðurinn sem minnir á margt.

Sýningin er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 til 23. mars.

Maðurinn sem minnir á margt

Er svo margt að minnast á, margar glaðar stundir. Mér er minnisstætt þegar ég var í grunnskóla og stóð fyrir framan íslenskukennarana og flutti erindi úr Í Hlíðarendakoti utanbókar. Mér er minnisstætt þegar ég var skiptinemi og stóð fyrir framan allan bekkinn og flutti Sonnettu eftir Shakespeare utanbókar. Mér er minnisstætt þegar ég festi tunguna við ljósastaur í nístings frosti, á meðan vinkona mín hló sturlaðist ég af hræðslu, reif tunguna frá og markaði blóðslóð í snjónum. Mér er minnisstætt þegar ég var í kapphlaupi við bróður minn niður tröppur af 5. hæð á hóteli á Benidorm, þegar ég sprengdi hljóðmúrinn og hljóp í gegnum glerhurð sem aðskildi lobbý og sundlaug. Mér er minnisstætt þegar ég sat á túninu heima, reitti nýsprottið grasið og lét hugann reika þegar ör með áfestum nagla sem frændi minn skaut með boga upp í loft beint fyrir ofan mig, stakkst á kaf milli vinstra auga og eyra og dinglaði á húðinni þar til ég öskraði. Ópið, Pac-Man, geimvera, 7 hnettir, Duftgráið við, Hrist ryk á steini, Á skákborði sturtunnar rignir kóngum og Flöt spæna, eru mér einnig minnisstæð.

Í verkum sínum ýtir Ólöf Helga hversdagslegu efni út fyrir sitt hefðbundna hlutverk og varpar þannig óvæntu ljósi á kunnugleg sjónarhorn. Efnið sem hún notar hefur auk þess oft sögulega merkingu sem er mjög persónuleg. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og MFA-gráðu í myndlist frá Slade School of Fine Art í London árið 2010. Árið 2001 stundaði hún örnám við Kvikmyndaskóla Íslands. Hún býr og starfar á Siglufirði. Framundan eru sýningar í Verksmiðjunni á Hjalteyri í ágúst og á Sequences – real time art festival í október.

Uppbyggingasjóður/menningarráð Eyþings, Fjallabyggð, Norðurorka og Aðalbakarí styðja við menningarstarf í Alþýðuhúsinu.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com