K&B

Kling&Bang kynnir Í Alvöru – Sequences IX

Alþjóðlegi myndlistartvíæringurinn Sequences verður haldinn í níunda sinn dagana 11.-  20. október 2019.

Sýningastjórar hátíðarinnar eru að þessu sinni myndlistarmennirnir Ingólfur Arnarsson (f. 1956) og Hildigunnur Birgisdóttur (f. 1980) sem bæði eru virk í íslensku listalífi sem myndlistarmenn, kennarar og sýningarstjórar. Þetta er í fyrsta sinn sem þau vinna saman að verkefni af þessum toga en þau hafa á undanförnum árum kennt  í sameiningu námskeið við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Sequences-hátíðin í ár mun teygja anga sína víða og verða sýningarými meðal annars Marshallhúsið á Granda, sem hýsir bæði Nýlistasafnið og Kling & Bang, Ásmundarsalur, Harbinger, Open og Bíó Paradís.

Heiðurslistamaður hátíðarinnar í ár verður Kristinn Guðbrandur Harðarson (f. 1955) sem hefur starfað ötullega í íslensku myndlistarlífi um áratuga skeið. Í verkum Kristins á sér stað persónuleg og ljóðræn úrvinnsla á hans nánasta umhverfi þar sem hann notast við fjölbreyttar miðlunarleiðir, texta, útsaum, skúlptúra, veggmálverk, teiknimyndir og gjörninga svo fátt eitt sé nefnt. Kristinn mun halda einkasýningu í Ásmundarsal og gefa út bókverk, sem verður í leiðinni sjálfstætt sýningarrými.

Undirtitill Sequences, real time art festival, vísar til  upphaflegu áherslu hátíðarinnar á tímatengda miðla og verk sem unnin eru í rauntíma. Að þessu sinni er orðið rauntími slitið í sundur og afstæði hugtakanna raun og tími kannað.  Á hátíðinni í ár gefst áhorfendum því kostur á að kynnast nokkrum sjónarhornum veruleikans sem lýsa mögulega þeim tímum sem við upplifum nú. Ingólfur og Hildigunnur takast á við spurningar um veruleika og hjáveruleika, rauntíma og afstæðan tíma með víxlverkun þeirra listaverka sem stefnt verður saman.


Hver tími er hverjum tímverja raunverulegur á sérhverju augnabliki. Rauntíminn ferðast eftir óteljandi rásum sem hverfast um hvern þann sem þar dvelur. Það er hverjum hollt að dýfa tánni í annars tímarás og fá þannig nýtt sjónahorn á raunveruleikann.

Um hátíðina

Sequences – real time art festival er alþjóðleg myndlistarhátíð, sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík. Að baki Sequences standa Kling & Bang, Nýlistasafnið og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar auk listamanna sem virkir eru í listamannareknu senunni í Reykjavík hverju sinni. Sequences er rekin án hagnaðarsjónarmiða. Fyrsta Sequences-hátíðin var haldið árið 2006. Á meðal fyrri listamanna sem sýnt hafa á Sequences má nefa Joan Jonas, David Horvitz, Heklu Dögg Jónsdóttur, Guido van der Werve, Ragnar Kjartansson, Emily Wardill, Ragnar Helga Ólafsson, Finnboga Pétursson, Rebeccu Erin Moran, Alicja Kwade og Carolee Schneemann.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com