Sporbrautir

Karlotta Blöndal sýnir í Úthverfu

N.k. Laugardag 6. maí kl. 16 opnar Karlotta Blöndal sýningu í Gallerí Úthverfu. Sýningin ber heitið ,,Sporbrautir.’’

,,Þrír hnettir á sí-endurtekinni ferð um sporbraut í himingeimnum, einn er ljós, annar er dökkur. Við, sem erum áhorfendur á sýningu Karlottu Blöndal í Gallerí Úthverfu, erum stödd á þriðja hnettinum. Hann er hvorki hvítur né svartur heldur sýnist blár í mikilli fjarlægð. Skyndilega dimmir í galleríinu, það er eins og einhver sé að dempa ljósin. Við skynjum hvernig dregur úr birtu smám saman og áttum okkur á því að einn hnötturinn er byrjaður að skyggja á annan, sá dökki hefur lent í beinni sjónlínu milli okkar og ljósa hnattarins, hann byrgir okkur sýn. Það verður sífellt dimmara þangað til orðið er algert myrkur og við rétt greinum útlínur verkanna á veggjum gallerísins. Skuggamyndir. Í sama andartaki birtir og fljótlega er orðið jafn bjart og áður, verkin koma í ljós á ný. Atburðurinn sem við höfum orðið vitni að stendur ekki mjög lengi yfir, aðeins í örfáar mínútur. Gæti
hugsast að tíminn sem hið mikla myrkur átti sér stað hafi verið svipað langur og tæki að teikna litla teikningu, kannski eins og þær sem settar hafa verið upp á sýningunni í galleríinu þar sem við erum stödd?

Á sýningu Karlottu Blöndal má sjá ný verk sem Karlotta hefur unnið á undanförnum mánuðum fyrir rými Gallerís Úthverfu og tengjast öll í gegnum teikningu. Á sýningunni tekur á móti áhorfendum verk sem líkist helst fána, þar sem skeytt er saman teikningu og textíl. Tákræn merking fánans er hins vegar óljós. Í stórri blýantsteikningu teygja hvítir geislar sig undan dökkum hnetti en ná aðeins að lýsa upp rýmið í kringum hann. Frá miðju og að jöðrum pappírsins er myrkur. Efnið sem fest hefur verið við pappírinn er órætt framhald teikningarinnar, ljósstrengir sem ganga niður úr myndinni. Í verkinu má sjá mynd af sólmyrkva, fyrirbæri sem lýtur lögmálum himintunglanna og er handan tíma og rýmis gallerísins. Samt sem áður er myndin auðþekkjanlegt tákn, tungl fyrir miðju sólar. Þrátt fyrir að verkið sé nær tvívítt er mynd þess tákn um atburð í rými sem er stjarnfræðilega stórt, verkið staðsetur tunglið milli áhorfenda og sólarinnar. Ef komið er nær og horft handan myndarinnar, á teikninguna sjálfa, má sjá að verkið hefur í raun tekið á sig þrívítt form. Myrkrið sem umlykur birtuna í verkinu verður til með sí-endurtekinni teikningu listamannsins sem þekur pappírinn smám saman með þykku lagi af grafíti. Í textilnum má finna andstæðu þessa ferlis en þar hefur listamaðurinn tekið efnið í sundur, þráð fyrir þráð. Efnið er gegnsæ himna sem hleypir birtu í gegnum hluta verksins. Önnur verk sýningarinnar eru smærri og öll af sömu stærð. Á veggjum gallerísins má sjá rauðar og gulleitar teikningar auk nokkurra sem unnar eru með blýanti. Þessi verk birta áhorfendum annað rými en stærra verkið sem myndgerir hinn ytri heim. Teikningarnar opna leið inn í innri heim en ekki heim listamannsins heldur efnisins sjálfs. Í stað þess að efnisgera myrkrið á papírnum er hver teikning listamannsins tilraun til þess að gera birtuna sýnilega.

Karlotta leggur stund á teikningu, en athöfnin að teikna er fyrir listamanninum spunakennd iðkun. Hver teikning er atburður sem tekur ekki langan tíma, stundum örfáar mínútur. Í verkum sýningarinnar má greina feril blýantsins í teikningunni og fylgja þannig hendi listamannsins eins og hún væri á braut um spor í rými pappírsins. Eins og hnöttur á spori um himingeiminn. Hvort erum við á leið inn í myrkrið eða í átt að birtunni? Það kemur í ljós.‘‘

–Heiðar Kári Rannversson, listfræðingur
………………

Karlotta Böndal útskrifaðist frá Listaakademíunni í Malmö 2002 og býr nú og starfar í Reykjavík. Hún hefur sýnt víða, bæði hér á landi sem erlendis og hefur dvalið á ýmsum vinnustofum í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Hún ritstýrði og var meðútgefandi tímaritsins Sjónauka (tímarit um myndlist og fræði) auk þess að hafa komið að nokkrum listamannreknum rýmum. Hún hefur verið stundakennari við Listháskóla Íslands og er nú stundakennari við Myndlistarskólann í Reykjavík. Sum verka hennar má sjá á heimasíðunni: www.karlottablondal.net

Sýningin verður opnuð kl. 16 á laugardaginn að viðstöddum listamanninum. Boðið verður upp á léttar veitingar og allir eru velkomnir. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Ísafjarðarbær styrkja rekstur Gallerís Úthverfu.

OUTVERT ART SPACE / Gallerí Úthverfa
opið eftir samkomulagi / open by appointment
ArtsIceland – Aðalstræti 22 – 400 Ísafjörður
www.kolsalt.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com