Karlotta Blöndal: Raddað myrkur

d8d57b9b-bbc6-4b00-876a-826d0569c5fc

 

Harbinger býður ykkur hjartanlega velkomin í útgáfuhóf bókarinnar ‘Raddað myrkur’ og á opnun samnefndrar myndlistarsýningar Karlottu Blöndal, í sýningarrýminu Harbinger að Freyjugötu 1, miðvikudaginn 18. febrúar kl 17.

 

Bókin ‘Raddað myrkur’ inniheldur fundargerðir og önnur gögn Tilraunafélagsins í Reykjavík sem varðveist hafa, í yfirfærslu og meðförum Karlottu.
Aðrir þátttakendur í bókinni eru Benedikt Hjartarson, Erlendur Haraldsson og Birna Bjarnadóttir. Tilraunafélagið í Reykjavík var félagsskapur sem rannsakaði miðilsgáfur Indriða Indriðasonar á árunum 1905-1909. Bókin og sýningin markar lok rannsóknar Karlottu á Tilraunafélaginu í samhengi myndlistar.

Verk Karlottu Blöndal hverfast um tvo meginþræði; annars vegar rannsókn hennar á sambandi okkar við hið náttúrulega og áþreifanlega, og hins vegar rannsókn hennar á hugmyndum okkar um hið yfirnáttúrlega og óáþreifanlega. Verkin taka á sig margs konar form; teikninga, bókverka og málverka, en einnig gjörninga og umhverfisverka. Þau ögra oft hefðbundnum skilyrðum myndlistar og skilja hvorki eftir sig heimild né spor, en þegar heimild verður til er hún gjarnan huglæg; háð skynjun Karlottu á abstrakt ferli sem hún hrindir af stað í rannsókn sinni. (Hanna Styrmisdóttir)

Karlotta Blöndal lærði við Myndlista-og Handíðaskóla Íslands og Listaakademíunni í Malmö hvar hún fékk M.A. í myndlist. Hún hefur víða unnið að eigin verkum og sýningarhaldi auk þess að koma að ýmsum listamannreknum rýmum ss. Nýlistasafninu í Reykjavík, Signal sýningarrýminu í Malmö og sem meðútgefandi og ritstjóri Sjónauka, tímarits um myndlist. Hún er einnig félagi í Könnunarleiðangrinum á Töfrafjallið.

Sýningin stendur yfir til 1.mars og er opin fimmtudaga og föstudaga frá 14-18 og laugardaga frá 14-17, og eftir samkomulagi.

‘Raddað myrkur’ er styrkt af Myndlistarsjóði.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com