
JORIS RADEMAKER sýnir í MJÓLKURBÚÐINNI á AKUREYRI
Laugardaginn 17. nóvember opnar Joris Rademaker myndlistarsýningu á nýjum verkum í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri.
Sýningin stendur yfir í tvær helgar (til 25. nóvember) og er opin frá kl. 14-17 laugar-og sunnudaga. Allir velkomnir.
Hreyfing er aðal drifkrafturinn í mannkyninu og náttúrunni til að aðlagast nýjum aðstæðum. Joris Rademaker rannsakar og leikur sér með grundvallarþætti náttúrunnar í listsköpun sinni.
Að skapa list og að hlusta á innsæi sitt er hans aðferð til að lifa af, ásamt því að fá meiri skilning á umhverfinu og lífinu sjálfi. Hann vonar að mannkynið læri að lifa í sátt við náttúruna en ekki á henni.
Joris hefur unnið lengi með fundna hluti, bæði manngerða og beint úr náttúrunni. Verkin eru oftast táknræn og túlka og tjá tilfinningar, samband og tengsl manns og náttúru á persónulegan hátt.
Óspillt náttúra Íslands gefur honum sífellt innblástur. Joris vill breyta fundnu hlutunum sem minnst en setja þá í nýtt samhengi.