
Jóna Hlíf opnar sýninguna Kyrrð 29.06.2018
KYRRÐ
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Opnun 29. júní kl 17:00
Sýningin stendur yfir til 12. ágúst.
Myndlistarkonan Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar einkasýninguna K Y R R Ð núna á föstudaginn 29. júní klukkan 17.00 í Kjallaranum hjá Geysi Heima, Skólavörðustíg 12.
Jóna Hlíf sýnir ný verk sem samanstanda af gólfskúlptúrum og textaverkum. Á sýningunni er unnið út frá nýrri frásögn og með nýja efniviði. Í forgrunni er leikur með konseptin “afstrakt” og “form” með hliðsjón af því hvað felst í að eitthvað sé staðbundið. Líkt og í fyrri verkum Jónu Hlífar er einnig unnið með tungumálið, orð og samspil ljóss, forms og lita.
Öll verkin tengjast endurminningum um staði á eða nálægt hálendi úr misgömlum ferðalögum. Að baki hverju verki er mynd af stað sem reynt er að lýsa í eins fáum orðum og hægt er, með því að draga fram kjarnann úr endurminningunni af upplifuninni. Það sem sameinar eru heiðríkja, tærleiki og kyrrð – að minnsta kosti í huganum.
Jóna Hlíf (1978) útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA í listkennslu frá Listaháskólanum 2012. Hún var formaður MHR frá 2012 til 2013 og formaður SÍM frá 2014 til 2018. Hún starfar einnig sem stundakennari hjá Listaháskóla Íslands og Myndlistarskólanum á Akureyri.
…
Gréta Rún Snorradóttir sellóleikari spilar á opnuninni og léttar veitingar verða í boði fyrir gesti og gangandi.
…
Geysir Heima er sérverslun með hönnunar- og gjafavöru: rúmföt, teppi, kerti, keramík og jafnvel japönsk reiðhjól.
í kjallara verslunaninnar er starfrækt lítið listagallerí, sem ber hið einfalda nafn; Kjallarinn. Þar eru haldnir reglulega listviðburðir á sem gaman er að fylgjast með.