Jón Axel opnar í Listasafni ASÍ Og Margrét H Blöndal og Huginn Þór Arason afhjúpa nýtt verk á Gunnfríðarstöpli laugardaginn 7. mars klukkan 15:00.

JónAxel-30,1,2015-004 2

 

 

Listasafn ASÍ  –   7.-29. mars 2015  –   Jón Axel Björnsson

 

ENDURRÖÐUN

 

Laugardaginn 7. mars kl. 15:00 verður opnuð í Listasafni ASÍ sýningin ENDURRÖÐUN  með verkum Jóns Axels Björnssonar.

Árið 2014 hengdi Jón Axel Björnsson upp í kaffihúsinu Mokka myndröð sem ekki lét mikið yfir sér. Myndröðin, gerð með svörtum akrýllit á brúnan pappír, bar nafnið Svarti kassinn. Gagnstætt því sem búast hefði mátt við af listamanninum, áhugamanni um myndlistarlegar birtingarmyndir algildra sanninda, var hér ekki verið að hylla svarta ferninginn hans Malevich, heldur var um að ræða afbyggingarferli í kringum hugmynd um nærtækt og mjög svo áþreifanlegt fyrirbæri: svartan pappakassa, hlutverk hans og útlit. Jón Axel gengur skipulega til verks, opnar þennan ímyndaða kassa  upp á gátt og hlutar hann síðan niður í frumparta sína. Þessir partar, marflatir og alla vega ferhyrndir, eru síðan uppistaðan í myndröðinni. Ýmiss ummæli listamannsins gefa til kynna að afbygging hugmyndarinnar um svarta kassann sé ekki hluti af eftirgrennslan eftir grundvallaratriðum form-og rúmfræðinnar, heldur sé hún hluti af heimatilbúnu líkingamáli um upplausn athvarfsins, alls þess sem maðurinn smíðar sér sem umgjörð utan um það sem honum er kært, hvort sem það er askja, hús eða eitthvað annað. Í þessu ferli sem hér hefur verið lýst, hefur athvarfið verið leyst upp, innviðir þess dreifst og innihaldið tapast.

Líta má á myndröðina á Mokka sem eins konar forsmekk þeirrar tilvistarlegu uppstokkunar og endurröðunar sem á sér stað á sýningunni sem Jón Axel hefur nú opnað í Listasafni ASÍ. Upplausn athvarfsins sem rakin var með huglægum formerkjum í pappírmyndunum á fyrri sýningunni, er hér sviðsett bæði sem persónubundin ákoma og hluti af hinni stóru lífsbaráttu. Tónninn er gefinn í meginsal, þar sem finna má þrjú mikil málverk með þétt máluðum svörtum einingum sem fylla út í jaðra, þar sem klúka stakar mannverur. Í eiginlegri og huglægri þyngd efnisins og blæbrigðaríkri áferðinni verða þessar máluðu einingar ímyndir athvarfsins sem maðurinn reisir sér gegn óreiðunni. Í þessu samhengi hefur hið manngerða athvarf  hins vegar snúist gegn manninum, ýmist sligað hann eða ýtt honum til hliðar. Í framhaldinu verður hann eins konar jaðarpersóna – statisti – í eigin tilveru, með slitur minninganna sem ótraust haldreipi.

 

Samt einkennist þessi salur ekki af uppgjöf og bölmóði, né heldur er hér slegið á þennan eina streng sem hér er nefndur heldur marga í einu, eins og svo oft áður í verkum Jóns Axels. Skáhallt við stóru myndirnar þrjár getur að líta þrjár smámyndir í hörðum strangflatastíl, hengdar upp eins og til mótvægis þeim fyrrnefndu. Nánari skoðun leiðir í ljós að smámyndirnaar hafa einnig til að bera verulega efnislega þyngd og áferð; því liggur beinast við að álykta að hér séu komnar grunneiningar að nýju athvarfi og þar með drög að nýju upphafi. Önnur lítil olíumynd er þarna eins og fyrir tilviljun, en þar sem Jón Axel gerir ekki út á tilviljanir, er líklegt að hún eigi að vera það sem á tónlistarmáli er kallað coda, skýr og áhrifaríkur endahnútur með innbyggðri  niðurstöðu varðandi það sem á undan er komið. Þessi mynd einkennist af mýkt, björtu litrófi og varfærinni vísun til hins kvenlega.

 

Í arinherbergi á neðri hæð hússins er tilvistarbaráttan skoðuð í breiðara samhengi. Í vatnslitamyndum Jóns Axels mætir okkur það sem kalla mætti Sjónleikhús hið ótrygga rýmis, sem er stofnun sem listamaðurinn hefur kynnt í myndum sínum á undanförnum árum. Í myndunum koma fyrir karlmenn, einir síns liðs og aðþrengdir, í samhengi sem þeir ekki skilja eða við aðstæður sem þeir ráða ekki við. Rýmið er helsti ásteytingarsteinninn, þar sem til lengdar lýtur það ekki þeim lögmálum sem sögupersónur – staðgenglar okkar – eru áskrifendur að. Hið þrívíða rými, þar sem er staður allra hluta og allir atburðir gerast, þenst út óforvarendis og rennur þá stundum saman við óendanlegt alheimsrými, þar sem engin er fótfestan og viðmiðin skortir. Eða það skreppur saman og snýst upp í rými einskærra tilfinninga eða svarthol uppfullt með hluti sem ætla okkur lifandi að drepa með fyrirferð sinni.

 

Í gryfjunni er síðan að finna annars konar sjónleikhús, þar sem áhorfendum er boðið að endurnýja kynnin við skúlptúra sem listamaðurinn frumsýndi á sama sýningarstað fyrir fimmtán árum. Skúlptúrarnir eru tólf gifshöfuð í augnhæð, staðsettir á undirstöðum úr málmi. Ef fyrsti hluti sýningarinnar snýst um tilvist manns, annar hlutinn um athafnarými hans, þá gæti þessi þriðji hluti sem best verið helgaður tímanum. Því á þeim fimmtán árum sem liðin eru frá frumsýningu höfuðanna hafa þau elst og breyst, hvert með sínum hætti. Þetta ferli kennir Jón Axel við endurröðun. Áður voru þeir allir steyptir í sama mót; voru þá hlutgervingar einhvers konar upphafningar, rétt eins og svarti ferningur Malevich sem nefndur er hér að framan. Nú lúta þeir lögmálum raunheimsins, rétt eins og höfundur þeirra. Boðskapur þessara skúlptúra, eins og raunar sýningarinnar allrar er: lífsbaráttan fer fram hér og nú, í holdinu, en ekki í huglægu rými andans.

 

Aðalsteinn Ingólfsson

 

 

 

Sýningin stendur til 29. mars og safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17. Aðgangur er ókeypis.

 

 

Listasafn ASÍ  –  STÖPULLINN   –  Margrét H. Blöndal og Huginn Þór Arason  –   7.mars til 13. maí 2015

 

 

Margrét og Huginn

 

Þann 7. mars  kl. 15:00 verður myndverk Margrétar H. Blöndal og Hugins Þórs Arasonar afhjúpað á Gunnfríðarstöpli  fyrir framan Listasafn ASÍ við Freyjugötu  41.

Verk Margrétar og Hugins  er það fjórða  í röð listaverka sem sett verða á stöpulinn en hann var tekinn í notkun í október 2013.

Val á listamönnum á þessum sýningarvettvangi fer þannig fram að þeir velja sjálfir eftirmann sinn á stöplinum.

Stöpullinn er styrktur af Reyjavíkurborg.

Safnið er opið alla daga nema mánudaga  from 13:00 to 17:00  og aðgangur er ókeypis.

 

Listasafn ASÍ – Freyjugötu  41 – s.: 511 5353 – www.listasafnasi.isasiinfo@centrum.is

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com